Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Leggja til snjóflóðaviðvörunarkerfi í Skollahvilft

15.05.2021 - 13:46
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Vegagerðin leggur til að gerðar verði tilraunir með radarmælingar í Skollahvilft, þaðan sem snjóflóðið féll í janúar í fyrra. Radarinn nemi snjóflóð þegar það fer af stað og kveikir á aðvörunarljósum sem lokar vegarkaflanum, þannig að bílar komist út af því áður en flóðið nær að vegi. Þessar aðferðir hafi verið notaðar í Noregi.

Þetta kemur fram í minnisblaði Vegagerðarinnar sem lagt var fram í bæjarráði Ísafjarðarbæjar í vikunni. 

Þar koma fram tillögur Vegagerðarinnar um aðgerðir sem taldar eru til þess fallnar að bæta öryggi og auka þjónustustig á Flateyrarvegi yfir vetrartímann. Samkvæmt minnisblaðinu er Flateyrarvegi lokað tvisvar til þrisvar á meðalvetri vegna snjóflóða eða snjóflóðahættu.

Veturinn 2019 til 2020 var tíu sinnum lýst yfir óvissustigi á Flateyrarvegi, en þá eru taldar tíu til 40 prósent líkur á að snjóflóð falli á veg. Veginum var lokað fimm sinnum um veturinn og lýst yfir hættustigi en það er sett á ef snjóflóð fellur á veg eða veður er þannig að ekki sé öruggt fyrir vegfarendur að vera á ferðinni.  

Í minnisblaðinu leggur Vegagerðin til að framkvæmdir á Flateyrarvegi fyrir 450 milljónir króna heildarkostnað, ef farið yrði í þær allar.

Vegagerðin leggur til að viðvörunarbúnaður tengdur radar verði settur upp í hlíðinni fyrir ofan Flateyri, sem kölluð er Skollahvilft. Aðvörunarljós kvikni þá þegar snjóflóð fari af stað og loki vegarkaflanum, segir í minnisblaðinu. Á kaflanum frá varnargarði að Hvilft sé líkleg að skipta þurfi veginum í þrennt.  Þá er lagt til að skoðað verði að setja upp samskonar búnað í Selabólsurð og að komið verði upp lokunarljósum sitthvoru megin við hana á alls þremur stöðum; Selabólsurð, á Traðarnesi og undir Bæjargili. 

Þá er lagt til að öryggissvæði Flateyrarvegs verði lagfært nærri Selabólsurð. Þetta væri hægt að gera óháð öðrum aðgerðum og bæta umferðaröryggi. 

Þriðja tillagan snýr að því að setja upp stálþil á valda staði á leiðinni með það að markmiði að ná að koma í veg fyrir að minni snjóflóð fari yfir veginn. Reynslan yrði síðan nýtt í samráði við Veðurstofuna til að ákveða skilgreiningar á hættistigi á veginum og lokanir. 

Vegagerðin telur að allar aðgerðirnar myndu bæta ástandið á Flateyrarvegi og auka öryggi vegfarenda en að ljóst sé að áfram verði þar snjóflóðahætta þegar hættustigi er lýst yfir. 

Í bréfi frá samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytinu til Ísafjarðarbæjar kemur fram að mikilægt sé að tillögurnar verði teknar til nánari umfjöllunar og forgangsröðunar við gerð tillögu að nýrri fimm ára samgönguáætlun sem sé í undirbúningi. Ráðuneytið leggi áherslu á að tillögurnar verði unnar í góðu samráði við Ísafjarðarbæ. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV