Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Leggja af stað á tind Everest-fjalls í kvöld

15.05.2021 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsent efni - RÚV
Sigurður Bjarni Sveinsson og Heimir Fannar Hallgrímsson, sem ætla að klífa Everest-fjall fyrir Umhyggju, félag langveikra barna, hefja ferð sína á tindinn í kvöld. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Sigurðar. Eins og ferð á Everest sé ekki nóg hafa félagarnir einnig þurft að huga vel að persónulegum sóttvörnum eftir að hópsýking af völdum kórónuveirunnar kom upp meðal fjallgöngugarpa.

Sigurður segir að þetta hafi verið mikill tilfinninga-rússíbani en nú sé markmiðið að stefna enn hærra. „Eina markmiðið er að hnéð haldist stöðugt og stefna hærra þar til tindinum er náð.“  Hann haldi inn í nóttina, auðmjúkur í hjarta og fullur þakklætis, reiðubúinn til að gefa allt í verkefnið.

Tveir fjallgöngumenn létust í hlíðum Everest-fjalls í vikunni, annar þeirra eftir að náð tindinum en síðan örmagnast.  Yfirvöld í Nepal hafa gefið út metfjölda leyfa til að klífa þennan hæsta tind jarðar eftir að ferðir þangað lágu niðri í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.