Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kínverska könnunarfarið Sjúrong lent á Mars

15.05.2021 - 01:48
epa08559963 Replica Mars rovers on display at a shopping mall in Beijing, China, 22 July 2020. China is to launch a Long March 5 carrier rocket to carry a Chinese Mars probe, Tianwen 1, in the coming days, according to the China Academy of Space Technology.  EPA-EFE/WU HONG
Eftirlíking af sexhjóla könnunarfarinu Sjúrong til sýnis í verslunarmiðstöð í Peking. Mynd: epa
Kínverska könnunarfarið Sjúrong lenti á Mars fyrir stundu og gekk lendingin að óskum. Frá þessu er greint í kínverskum ríkisfjölmiðlum. Komst könnunarfarið óskaddað í gegnum aðflug og lendingu, sem jafnan er talið erfiðasti og hættulegasti hluti Marsferða.

Síðasti spölurinn, frá því að geimför koma inn í lofthjúp plánetunnar, um það bil 100 kílómetrum ofan við yfirborð hennar, og þar til þau lenda, gengur undir heitinu "sjö mínútna ógn og skelfing" þar sem ekkert má fara úrskeiðis ef ekki á illa að fara. Hefur þessi síðasti þröskuldur reynst ófáum Marsflaugum óyfirstíganlegur og þær brotlent og eyðilagst.

Tímamót í geimferðasögunni

Könnunarfarið var flutt til Mars með Tianwen-1 geimflauginni, sem skotið var upp í júlí í fyrra. Hún hefur verið hefur á sporbaug um plánetuna frá því í febrúar, en beðið var með að senda lendingarflaug með könnunarfarið innanborðs niður á yfirborðið þar til nú, þegar skilyrði voru hagstæð. Vel heppnuð lending kínverska könnunarfarsins markar tímamót í geimferðasögu Jarðarbúa.

Með henni eru Kínverjar ekki einasta orðnir þriðja þjóðin til að koma geimflaug til Mars, heldur líka fyrsta þjóðin til að takast allt í senn í sínum fyrsta leiðangri þangað; að koma flaug á sporbaug um þessa nágrannaplánetu okkar, koma lendingarflaug óskaddaðri niður á yfirborð hennar og könnunarfari af stað í rannsóknarleiðangur. Bæði Bandaríkjamenn og Rússar þurftu fleiri tilraunir áður en allt þetta gekk upp hjá þeim.

Könnunarfarið Sjúrong er nefnt í höfuðið á eldguði úr kínverskum þjóðsagnaarfi. Það er 240 kílóa sólarorkuknúið sexhjól, sem ætlað er að safna og greina grjót og jarðveg á Mars næstu þrjá mánuði eða svo.