Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ísraelsher sprengdi upp fjölmiðlabyggingu á Gaza

15.05.2021 - 14:10
epaselect epa09201568 An Israeli missile seen during an Israeli airstrike on at Al-Jalaa tower, which houses apartments and several media outlets, including The Associated Press and Al Jazeera, in Gaza City, 15 May 2021. In response to days of violent confrontations between Israeli security forces and Palestinians in Jerusalem, various Palestinian militants factions in Gaza launched rocket attacks since 10 May that killed at least nine Israelis to date. According to the Palestinian Ministry of Health, at least 139 Palestinians, including 39 children, were killed in the recent retaliatory Israeli airstrikes.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelsher sprengdi í morgun upp byggingu á Gaza sem hýsir fjölmiðlafólk á vegum Al Jazeera og AP-fréttaveitunnar. Eigandi byggingarinnar var varaður við að til stæði að varpa sprengju á bygginguna og því tókst að rýma hana í tæka tíð. Ísraelsher sagði að ráðist hefði verið á bygginguna þar sem þar væru hergögn í eigu Hamas-samtakanna sem ráða ríkjum á Gaza. Voru samtökin sökuð um að nota þá sem þar væru sem mannlega skildi.

Gary Pruitt, forstjóri AP, segir í yfirlýsingu að það sé mikið áfall að Ísraelsher skuli hafa ráðist á byggingu sem hafi hýst fjölmiðlamenn á vegum AP og annarra fjölmiðla. AP ætli að óska eftir skýringum frá Ísrael í samstarfi við bandarísk stjórnvöld. „Naumlega var komist hjá því að þarna hefðu saklaust fólk týnt lífi.  Nokkur fjöldi fréttamanna frá AP og öðrum fjölmiðlum voru inni í byggingunni en það tókst að rýma hana í tæka tíð. Heimurinn á eftir að vita minna hvað gerist á Gaza í dag en áður.“

Í dag er sjötti dagurinn þar sem sprengjum rignir yfir íbúa á Gaza og eldflaugum þaðan skotið í átt að Ísrael. Tíu féllu í árás á flóttamannabúðir á Gaza í morgun, þar af átta börn.

Árásir almennra borgara hver á annan hafa einnig færst í vöxt.  Palestínumenn á Vesturbakkananum og í Austur-Jerúsalem mótmæla nánast linnulaust, ekki aðeins loftárásunum á Gaza heldur einnig landtöku Ísraelsmanna sem var kveikjan að þessum nýjustu átökum.

Landtakan er fyrirhuguð í Sheikh Jarrah-hverfinu í Austur-Jerúsalem en þar stendur til að skipa palestínskum fjölskyldum að yfirgefa heimili sín á þeim grundvelli að landið sem húsin standa á hafi eitt sinn verið í eigu gyðinga. 

Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði í dag stríðandi fylkingar við að loftárásir á fjölsótta staði gætu flokkast sem stríðsglæpir.  Sama ætti við ef Ísraelsher beitti skotvopnum á mótmælendur.

Bachelet gagnrýndi jafnframt að ísraelska lögreglan sinnti því ekki þegar ráðist væri á Palestínumenn með ísraelskan ríkisborgararétt á götum úti.  Hún hvatti jafnframt til þess að látið yrði af hatursfullri orðræðu, hún virtist eingöngu hella olíu á eldinn þegar fólk ætti að leitast við að lægja öldurnar.