Ekki bara nördar í Keflavík, alveg úti að keyra

Mynd: Facebook / Samsett

Ekki bara nördar í Keflavík, alveg úti að keyra

15.05.2021 - 11:00

Höfundar

Elíza Newman tónlistarkona og vinkonur hennar í hljómsveitinni Kolrassa krókríðandi voru númer níu á svið í Fellarokki í Fellaskóla þegar þær áttuðu sig á því að allir sem komu fram spiluðu sama lag og þær höfðu verið að æfa, Smells like teen spirit með Nirvana.

Fyrir tæpum þrjátíu árum sendi hljómsveitin Nirvana frá sér hina goðsagnakenndu plötu Smells Like Teen spirit og segja má að rokkið hafi ekki verið samt eftir það. Hún kom út 24 september 1991. Fjallað var um Nevermind í þættinum Nirvana – Nevermind í 30 ár á Rás 2 á fimmtudag.

Elíza Newman minntist þess þegar hún hlustaði á plötuna í fyrsta skipti. Hún hafði lengi verið spennt að fá að setja hana í tækið og pantaði hana í Hljómvali í Keflavík um leið og tækifæri gafst. „Mamma mín rak bókabúð og hún pantaði inn tónlistarblöð sem ég vildi, Spin, Rolling Stone og NME,“ rifjar Elíza upp.

Hún hafði lesið margt um Nirvana og beið þess lengi að fá að hlýða á lögin á bak við þessar merkilegu greinar. Það gerði hún loksins með vinkonum sínum, og lýsir hún þeirri stundu sem hálfgerðri seremóníu. „Það var ótrúleg upplifun, það var eins og að frelsast. Að heyra þetta geðveika trommusánd og bjáluðu texta og þetta attitjúd; mér er alveg skítsama,“ segir Elíza.

Hún tengdi mikið við sveitina og texta Kurts Cobains og fannst hún upplifa áður óþekktan skilning á sinni tilveru. „Það er einhver þarna úti sem skilur okkur, við erum ekki bara einhverjir nördar í Keflavík sem eru alveg úti að keyra. Það er bara eitthvað að gerast.“

Hún og vinkonur hennar í hljómsveitinni Kolrassa Krókríðandi elskuðu allar plötuna og fóru strax að spreyta sig á að spila lagið Smells Like Teen Spirit. En þær voru alls ekki einar um það. Sveitin steig á svið í Fellarokki, hljómsveitakeppni í Fellaskóla þar sem til stóð að spila lagið fyrir rokkþyrsta unglinga. Þær voru númer níu á svið og var illa brugðið þegar þær áttuðu stig á því að allar átta hljómsveitirnar sem léku á undan þeim, spiluðu sama lagið, Smells Like Teen Spirit.

„Við hættum við á síðustu stundu, við getum ekki verið níunda hljómsveitin sem spilar þetta,“ segir Elíza. „Þetta er bara lýsandi fyrir stemninguna, það eru allir að tryllast yfir þessu og allir vildu vera í rokkhljómsveit. Þetta eru svona fyrstu minningarnar mínar af þessu.“

Því hefur verið fleygt fram að þessi önnur plata Nirvana sé með fágaðra, útvarpsvænna hljóð en fyrri platan Bleach, og samkvæmt Kurt Cobain voru lögin undir áhrifum frá sveitum á borð við Pixies, The Smithereens, R.E.M. og The Melvins.

Nevermind er í dag álitin hornsteinn gruggrokksins og að með plötunni hafi gruggið og tilraunarokkið komist í meginstrauminn og tekið yfir hármetalinn sem hafði drottnað yfir níunda og tíunda áratugnum. Pönkið varð aftur vinsælt og Kurt Cobain varð rödd X-kynslóðarinnar.

Rætt var við Elízu Newman í þættinum Nirvana – Nevermind í 30 ár sem var á dagskrá á Rás 2 í gær.

Tengdar fréttir

Erlent

Hið þjáða andlit X-kynslóðarinnar