Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Biden ræðir við Netanjahú og Abbas

Mynd: EPA-EFE / SIPA USA POOL
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels og Joe Biden Bandaríkjaforseti ræða saman eftir að ísraelsk sprengja jafnaði byggingu við jörðu á Gaza sem hýsir fjölmiðlafólk á vegum Al Jazeera og AP fréttaveitunnar. Biden ræðir einnig við Mahmud Abbas forseta Palestínu.

Engan sakaði þar sem tilkynning barst í tæka tíð svo hægt var að rýma bygginguna. Gary Pruitt forstjóri AP sagði að litlu hefði mátt muna að manntjón yrði og kvaðst bæði hneykslaður og skelfingu lostinn yfir framferðinu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti lýsti þungum áhyggjum vegna ástandsins í Ísrael og á Gaza í símtali við Benjamín Netanjahú. Forsetinn lýsti sérstökum áhyggjum sínum vegna árása á starfsstöð fjölmiðla.

Biden lýsti einnig stuðningi við rétt Ísraelsríkis til að verja sig gegn eldflaugaárásum Hamas og annarra hryðjuverkasamtaka.

Forsetinn lagði ríka áherslu á að Hamas léti af eldflaugaárásum sínum á Ísrael í símtali við Mahmud Abbas Palestínuforseta. Sömuleiðis áréttaði hann áherslu sína á tveggja ríkja lausn svo tryggja megi varanlega lausn á málinu. 

Bandaríkjastjórn lýsti því yfir eftir árásina að Ísraelum hefði verið tilkynnti að þeim bæri rík skylda að tryggja öryggi blaðamanna og óháðra fréttaveitna. Ísraels hermálayfirvöld fullyrða að ekki einasta hefði byggingin hýst fréttaveiturnar heldur hefðu vígamenn Hamas-samtakanna haft þar aðsetur. 

Netanjahú fullvissaði Bandaríkjaforseta um að allt væri gert til að gæta þess að óbreytta borgara saki ekki í loftárásunum á Gaza. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ísraelska forsætisráðuneytinu í tengslum við samtal leiðtoganna.

AP fréttastofan segir Ísraelsstjórn ekki hafa sýnt fram á sannleiksgildi þess.  „Sönnun þess er að tryggt er að skotmörk sem geyma hergögn eru rýmd áður en til árásar kemur,“ segir í yfirlýsingunni. 

Walid al-Omari, yfirmaður Al Jezeera á svæðinu, hét því að ekki yrði þaggað niður í fréttastofunni. „Ekki er nóg með að Ísraelar valdi eyðileggingu og bana heldur ætla þeir að þagga niður í þeim sem segja frá því,“ sagði hann. 

Fréttin var uppfærð klukkan 19:32.