Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Alþingi skylt að jafna kynjahlutföll

15.05.2021 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: Inspirally
Alþingi getur ekki lengur skipað fólk í stjórnir og nefndir án þess að huga að sem jöfnustum kynjahlutföllum. Ný lög um þingsköp banna það. 

Ný lög um þingsköp sem samþykkt voru á þriðjudaginn 11. maí banna að Alþingi að skipa í nefndir nema kynjahlutföll séu sem jöfnust. Innan þings verður sami háttur hafður á nema að þá þarf að miða við niðurstöður alþingiskosninga og kynjahlutföll innan þingflokka.

Kynjahlutföll jöfnuð þegar næst kosið í stjórnir

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna var framsögumaður meirihlutatillögu allsherjar- og menntamálanefndar: 

„Alþingi er búið að skuldbinda sig til þess að setja jafnt kynjahlutfall í stjórnir eða að minnsta kosti 60 - 40 utan þings þ.e.a.s. þær sem að þingið skipar í samanber Seðlabankann, Landsvirkjun og fleiri.“ 

Var eina konan í fjárlaganefnd

Það eru ekki nema fjögur ár síðan Bjarkey var eina konan í níu manna fjárlaganefnd. Verði kynjahlutföll innan þingflokks ójöfn eftir kosningar getur verið erfitt að halda jöfnum kynjahlutföllum í þingnefndum og gera verður því ráð fyrir að þingflokkarnir þurfi að semja sín á milli um skipan í nefndir þannig að allir karlarnir endi ekki í fjárlaganefnd til dæmis. 

Þarf að auka hlut kvenna við val á framboðslistum

„Og það getur auðvitað hallað á kyn hjá einhverjum tilteknum flokkum eins og við sjáum bara dæmi um í dag að það hallar á konur sannarlega og það fækkaði konum á milli kosninga eins og við þekkjum. Það er auðvitað að mínu mati bara eiga flokkar að horfast í augu við það núna þegar verið er að stilla upp á lista og kjósa í forvölum og öðru slíku að reyna að horfa til þess að auka hlut kvenna að minnsta kosti að hafa hann jafnan þ.a. við getum tekist á við þetta inn á þingi og haft skiptinguna sem jafnasta í nefndum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.