Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja takmarka mjög bílaumferð í miðborg Parísar

14.05.2021 - 05:34
epa08514989 The incumbent mayor of Paris, Anne Hidalgo (C) celebrates after winning the second round of the French Municipal elections in Paris, France, 28 June 2020. The second round of municipal elections was to be held on 22 March 2020 but was delayed due to the ongoing pandemic of the Covid-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON
 Mynd: epa
Borgaryfirvöld í París hyggjast draga verulega úr umferð bíla í stórum hluta borgarinnar með því að banna gegnumakstursumferð í fjórum hverfum í miðborginni. Í staðinn fá almenningssamgöngur, hjólaumferð og gangandi vegfarendur aukinn forgang og meira pláss. Ætlunin er að breytingin gangi í gildi strax á næsta ári.

Rækileg takmörkun bílaumferðar gerir París að „hreinni, grænni, friðsælli og öruggari borg," segir í tilkynningu borgarstjórnar. Borgarstjórinn, Anne Hidalgo, var endurkjörin í fyrra, ekki síst út á grænar áherslur sínar og fyrirheit um að gera París að „15 mínútna borg." Í því felst að skapa umhverfi, sem auðveldar fólki að sækja skóla, verslanir og alla helstu þjónustu á innan við fimmtán mínútum á hjóli eða tveimur jafnfljótum.

Til að ná þessum markmiðum er meðal annars búið að nota tímann í heimsfaraldrinum til að útbúa hundruð kílómetra af hjólastígum.

Heimafólk fær áfram að aka bílum sínum um hverfin

Í greinargerð með áætlun borgaryfirvalda segir að markmiðið sé ekki að úthýsa bílum með öllu, heldur gera borgina umhverfis- og íbúavænni. Íbúum og rekstraraðilum í hverfinu verði áfram heimilt að aka bílum sínum heim að dyrum, en gegnumakstur verði bannaður og þeirri umferð beint annað. Áætlunin hefur nú verið lögð fram til kynningar og umsagnar þeirra sem hverfin byggja.