Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nær 140 Palestínumenn fallnir og loftárásir halda áfram

epaselect epa09199705 Siblings of 15-year-old Mahmud Tolba, who was killed in Israeli air strike, mourn during his funeral in Al Zaitun neighborhood in the east of Gaza City, 14 May 2021. In response to days of violent confrontations between Israeli security forces and Palestinians in Jerusalem, various Palestinian militants factions in Gaza launched rocket attacks since 10 May that killed at least six Israelis to date. Gaza Strip's health ministry said that at least 65 Palestinians, including 13 children, were killed in the recent retaliatory Israeli airstrikes. Hamas confirmed the death of Bassem Issa, its Gaza City commander, during an airstrike.  EPA-EFE/HAITHAM IMAD
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst 126 Palestínumenn liggja í valnum eftir linnulitlar loftárásir og stórskotahríð Ísraela á Gasaborg undanfarna daga. Ísraelskir hermenn bönuðu líka ellefu Palestínumönnum á Vesturbakkanum í dag, þar sem þúsundir mótmæltu árásunum á Gasa. Um 2.000 manns hafa leitað aðhlynningar vegna meiðsla og Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 10.000 Gasabúar hafi flúið heimili sín í sprengjuregninu. Margir þeirra hafast nú við í skólum sem Sameinuðu þjóðirnar reka í norðurhluta borgarinnar.

31 barn er í hópi þeirra sem sprengjuregn Ísraela hefur grandað á Gasa í vikunni og yfir 900 manns hafa særst, aðallega almennir borgarar. Ísraelsher hélt loftárásum sínum og stórskotahríð áfram í dag og enn fjölgar skriðdrekum og hermönnum við landamærin. Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, heitir því að halda árásunum áfram eins lengi og þarf „til að koma aftur á friði í Ísraelsríki.“

Mannfall í mótmælum á Vesturbakkanum

Á Vesturbakkanum, þar sem efnt var til fjölmennra og harðra mótmæla í dag, skutu ísraleskar öryggissveitir ellefu til bana. Á annað þúsund mótmælenda meiddust í átökum við öryggissveitirnar, sem skutu meðal annars táragasi og gúmmíhúðuðum stálkúlum að mótmælendum, en einnig venjulegum byssukúlum.

AFP fréttastofan hefur eftir heimildarmanni í öryggisliði Palestínumanna að ástandið á Vesturbakkanum hafi ekki verið jafn slæmt á Vesturbakkanum síðan alda ofbeldis og voðaverka reið yfir á herteknu svæðunum árið 2000. 

Hamasliðar skutu um 250 flugskeytum að borginni Ashkelon í morgun en þau náðu fæst marki sínu og ollu hvorki manntjóni né teljandi skemmdum á mannvirkjum. Alls hafa sjö fallið í flugskeytaárásum Palestínumanna; einn hermaður og sex almennir borgarar, þar af tvö börn.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman til opins fjarfundar á morgun til að ræða ástandið í Ísrael og Palestínu.