Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mikilvægt að #meetoo umræðan leiði til breytinga

14.05.2021 - 19:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þörf sé á frekari vitundarvakningu í samfélaginu til að berjast gegn kyndbundnu ofbeldi. Mikilvægt sé að þær reynslusögur sem konur hafa deilt á samfélagsmiðlum leiði til breytinga.

Fyrsta #metoo-bylgjan hér á landi var í hámarki þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við valdataumunum í nóvember 2017. Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti hún samantekt um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á síðustu árum til að berjast gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Þetta eru 34 aðgerðir, þar á meðal lagabreytingar, mótun forvarnaáætlunar, aukin fjárframlög til félagasamtaka og önnur verkefni er snúa að löggæslu og aukinni umræðu um þessi mál í samfélaginu.

„Meðal okkar fyrstu verka var að bæta fjármunum til lögreglu og héraðssaksóknara til að bæta rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála. En síðan höfum við verið að vinna að lagabreytingum, margar á forræði dómsmálaráðherra sem varða úrbætur í réttarkerfinu en líka að vitundarvakningu um ofbeldismál í samstarfi við bæði skólakerfi og vinnumarkað,“ segir Katrín.

Margt sé þó enn ógert og því þurfi að efla enn frekar umræðu um þessi mál.

„Við erum öll sammála um að það þarf að fara að vinna að því að breyta menningunni og það gerum við meðal annars í gegnum skólakerfið okkar og unga fólkið. Því þetta kallar á opið samtal þar um þessi mál til þess að við breytum menningunni til langframa,“ segir Katrín.

Katrín segir mikilvægt að sú vitundarvakning sem nú er í gangi skili sér í breytingum.

„Ég hef fylgst með þessari umræðu eins og við öll og það skiptir máli að sögurnar leiði af sér breytingar,“ segir Katrín.