Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Markvörður og fyrirliði Skagamanna frá út tímabilið

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Markvörður og fyrirliði Skagamanna frá út tímabilið

14.05.2021 - 08:45
Árni Snær Ólafsson, markvörður og fyrirliði ÍA í Pepsi Max-deild karla í fótbolta, fór meiddur af velli í 5-1 tapinu gegn FH í Kaplakrika í gærkvöld. Árni fór í skoðun á sjúkrahúsi eftir leik þar sem staðfest var að hann er með slitna hásin og Árni leikur því ekki meira með Skagamönnum í sumar.

Árni staðfesti þetta í samtali við vefsíðuna fotbolti.net í gær. Króatínn Dino Hodzic kom aftur til ÍA frá Kára fyrir tímabilið og Hodzic, sem er 205 sentimetrar á hæð, kemur væntanlega til með að verja mark Skagamanna það sem eftir lifir tímabils. 

Hann gat þó ekki komið inn á fyrir Árna í gær þar sem ÍA var búið að klára skiptingar sínar. Bakvörðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson þurfti að fara í markið og hann fékk tvö mörk á sig í fimmtán mínútna uppbótartíma leiksins. 

Uppbótartíminn kom einnig til vegna meiðsla Sindra Snæs Magnússonar sem meiddist líka illa í leiknum og var fluttur á brott í sjúkrabíl. Óttast var að Sindri væri rifbrotinn og Skagamenn urðu því fyrir mikilli blóðtöku í leiknum í Hafnarfirði í gær.