Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hannesarholt í viðræðum við hið opinbera um reksturinn

Mynd með færslu
 Mynd: salir.com

Hannesarholt í viðræðum við hið opinbera um reksturinn

14.05.2021 - 13:31

Höfundar

Útlit hefur verið fyrir að rekstri menningarhússins Hannesarholts yrði hætt. Átta ár eru síðan Hannesarholt var opnað. Fyrirhugað var að loka 20. júní og opna ekki að nýju í haust. Nú standa yfir samningaviðræður um aðkomu hins opinbera að rekstrinum.

Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, forstöðumaður Hannesarholts, svaraði fyrirspurn fréttastofu á þá leið að Hannesarholt hefði ekki notið þess stuðnings sem þyrfti. Nú hafi hið opinbera brugðist við og samningaviðræður standi yfir. Þar sé jákvæðni og lausnamiðun í fyrirrúmi.

Ragnheiður, sem er einn stofnenda Hannesarholts, sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu á þriðjudaginn að rekstrinum yrði ekki haldið áfram án aðkomu stjórnvalda. Hún sagði að rekstrinum væri ekki tryggður menningarmálastyrkur af hendi Reykjavíkurborgar líkt og misritað hefði verið í dagblaði. 

Hollvinafélag og stofnendur Hannesarholts hefði stutt við rekstur hússins en öllu starfsfólki var sagt upp fyrir skömmu. 

„Að öllu óbreyttu mun starfsemi Hannesarholts leggjast af í sumar. Hannesarholt hefur aldrei notið opinberra rekstrarstyrkja. Starfið hefur fyrst og fremst byggst á stuðningi stofnenda og hollvina, auk fyrirtækja, einstaklinga, lista- og fræðimanna,“ segir í grein Ragnheiðar.

„Forsvarsmenn Hannesarholts hafa átt í viðræðum við stjórnvöld og óskað hefur verið eftir rekstrarstuðningi, sem reyndar er ekki hár í krónutölu miðað við það ríka menningarstarf sem rekið er í Hannesarholti.“ 

Í grein í sama blaði hvatti Gunnar Kvaran, sellóleikari og prófessor emeritus við Listaháskóla Íslands, forsætis-, mennta- og menningarmálaráðherra til að gera gangskör að því að tryggja rekstur Hannesarholts um ókomin ár. 

Menningarstofnunin Hannesarholt var stofnuð 2009 og var boðið upp á vöfflukaffi í húsinu við Grundarstíg 10 á Menningarnótt 22. ágúst það ár. Formleg opnun var 8. febrúar 2013 og fjórum dögum síðar fékk Hannesarholt veitingaleyfi.

Tónlistarsalurinn Hljóðberg, sem er í nýbyggingu við húsið, var formlega tekinn í notkun 28. apríl sama ár. Auk þess hafa nokkrir salir verið leigðir út fyrir margvíslega menningarstarfsemi ásamt því sem í húsinu er rekið veitingahús.

Hannes Hafstein, skáld og fyrsti ráðherra Íslands, lét reisa húsið árið 1915 og bjó þar til dauðadags. Hann lést 13. desember 1922, 61 árs að aldri. Þá eignaðist Magnús Pétursson bæjarlæknir húsið og bjó þar um fimm ára skeið.

Þá eignuðust hjónin Helgi Guðbrandsson sjómaður frá Akranesi og Guðrún Illugadóttir húsið og afkomendur þeirra áttu það til 2007. Þá keyptu Ragnheiður, Arnór Víkingsson og börn þeirra húsið til að gera það upp svo opna mætti það almenningi.

Árið eftir var tekið til við endurbætur á húsinu og hönnun viðbyggingar við það. 
 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Heldur tónleika til að styrkja Hannesarholt