Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ekki óskað formlega eftir hjálp ÍE með greiningar

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Sóttvarnalæknir hefur ekki óskað formlega eftir því við Íslenska erfðagreiningu að hún létti undir við greiningu sýna. 

Íslensk erfðagreining sá lengst af um meginþungann af greiningu sýna. Nýtt tæki veirufræðideildar Landspítalans var tekið í notkun í febrúar og kom þá fram að það gæti greint þrjú til fjögur þúsund sýni á sólarhring. Veirudeildin og Sjúkrahús Akureyrar, sem einnig greinir sýni, eru komin að þolmörkum eins og sagt er og með auknum ferðamannastraumi gæti stefnt í langa bið eftir niðurstöðu sýn.

En hefur verið óskað eftir því við Íslenska erfðagreiningu að létta undir? 

„Það hefur ekki verið formlega óskað eftir því. En ég hef verið í viðræðum um þann möguleika sem og aðra möguleika,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Bregðast við ef leitað til þeirra

Svar Íslenskrar erfðagreiningar við spurningu Fréttastofu í morgun um hvort fyrirtækið myndi greina sýni er: Við munum bregðast við ef það verður leitað til okkar. 

Þórólfur segir að hann muni væntanlega á næstu dögum skila ráðherra tillögum um fyrirkomulag greininga. Það þýðir þá væntanlega að hann beri undir ráðherra áður en hann óskar formlega eftir aðstoð frá Íslenskri erfðagreiningu. 

Um hina möguleikana segir Þórólfur að verið sé að athuga hvort taka eigi í notkun hraðgreiningapróf. Hann segir ekki komið að því að hætta að skima fullbólusetta  farþega við komu til landsins. 

Skýrist með Skagafjörð um helgina

Um helgina skýrist hvort slakað verður á takmörkunum í Skagafirði en hertar aðgerðir þar gilda til miðnættis á sunnudag. Annar tveggja sem greindist með smit í gær var í sóttkví á Norðurlandi. 

„Þetta lítur bara vel út. Núna undanfarna daga hafa bara einstaklingar verið að greinast sem eru í sóttkví. Og líka þarna í Skagafirðinum þ.a. vonandi er það merki um að það sé búið að ná utan um þessa sýkingu.“