Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bretar bregðast við útbreiðslu indverska afbrigðisins

14.05.2021 - 17:30
epa09193517 Britain's Prime Minster Boris Johnson departs his official residence at 10 Downing Street to attend the Houses of Parliament in London, Britain, 12 May 2021.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að flýta seinni bólusetningu hjá fólki yfir fimmtugu og fólki í áhættuhópum eftir að tilfellum smita með indverska afbrigði COVID-19 fjölgaði verulega milli vikna. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá þessu síðdegis. Hann sagðist ekki ætla að breyta áætlunum um afléttingu sóttvarnatakmarkana að svo stöddu. Forsætisráðherrann viðurkenndi þó að stjórnvöld og landsmenn gætu staðið frammi fyrir erfiðum ákvörðunum á næstunni.

Greind COVID-19 veikindi sem stafa af indverska afbrigðinu hafa tvöfaldast á milli vikna. Óttast er að indverska afbrigðið sé meira smitandi en önnur. Augu yfirvalda beinast sérstaklega að Bolton og Blackburn þar sem útbreiðsla indverska afbrigðisins hefur aukist mjög undanfarið.

Johnson sagði á blaðamannafundi síðdegis að fólk í áhættuhópum og yfir fimmtugu fengi seinni sprautu bólusetningar átta vikum á eftir fyrri sprautunni, ekki tólf vikum síðar eins og nú er. 

Dregið verður úr takmörkunum á Englandi í næstu viku. Veitingastaðir og ýmis fyrirtæki verða þá opnuð á ný. Forsætisráðherrann sagði að því yrði ekki breytt núna. Hann hvatti fólk þó til að hafa varann á sér og leggja sitt af mörkum til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Þótt svo áætlun stjórnvalda um afléttingu takmarkana sé óbreytt viðurkenndi Johnson að það kynni að breytast. Nú er stefnt að fullri afléttingu takmarkana á Englandi 21. júní en Johnson sagðist ekki geta sagt með fullri vissu að það gengi eftir. Hann sagðist reiðubúinn að herða aðgerðir gegn faraldrinum ef hætti væri á að heilbrigðiskerfið réði ekki við ástandið.