Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Borgfirðingar kenna túristum að borða harðfisk

14.05.2021 - 09:32
Harðfiskverkandi á Borgarfirði eystra gerir sitt besta til að kenna ferðamönnum að borða harðfisk. Hann er sannfærður um að landinn geti stórgrætt á því að kenna ferðamönnum og heiminum öllum að borða þetta íslenska lostæti.

Fyrir rúmu ári keyptu Borgfirðingar harðfiskverkunina Sporð frá Eskifirði og fluttu til Borgarfjarðar. Þannig tókst að búa til fjögur störf á staðnum. „Hérna erum við með steinbít, fullt kar af steinbít sem við erum að fara að pakka. Þetta finnst mér það langbesta sem við gerum og er alveg bara fáránlega gott. Þegar hann er svolítið feitur þá er hann alveg rugl góður,“ segir Óttar Már Kárason, starfsmaður Sporðs á Borgarfirði eystra.

Þau vinna úr einu tonni af ýsu og steinbít á viku. Hver biti er skoðaður og metið hvort hann falli í fyrsta eða annan flokk. Talsverð tækifæri eru í að selja ferðamönnum harðfisk.

Hótel og veitingastaðir taka þátt

 „Svo höfum við hérna heima sent á öll hótel og veitingastaði og ég veit að þetta fer út. Ég er nú sjálfur með veitingastað hérna á sumrin og það er rosa gaman að gefa túristum að smakka. Það svona startar umræðum. Hérna er það sem við gerum, hvernig finnst þér það? Og svona fram og aftur,“ segir Óttar.

„Bráðnar í munninum"

Við hittum tvo Belga, Laurens Smeyers og Arne Vanhoof, sem komu til að skoða lunda í Hafnarhólma á Borgarfirði en eru óvænt lentir í harðfisksmökkun. „Mér finnst hann bragðast vel. Bragðið er milt ég hélt að það yrði sterkara. Það er saltkeimur, það er líka auðvelt að tyggja. Þetta er ekki eins og þurrkað kjöt, þetta er ekki seigt. Þetta bráðnar í munninum. Namm,“ segir Laurens.

„Við höfum engan þurrkaðan fisk í Belgíu en hann yrði frábær söluvara, held ég, til að hafa í Belgíu,“ segir Arne.

 „Þetta er lókal handverk, þetta er upplifun. Eins og þegar þú ferð til Ítalíu þá færðu þér pítsu og pasta og þegar þú ferð til Borgarfjarðar þá færðu þér harðfisk. Þetta er eitthvað sem við gætum verið að selja hverjum túrista. Einn eða tvo poka af harðfiski þá værum við helvíti góð,“ segir Óttar Már Kárason, starfsmaður Sporðs á Borgarfirði eystra.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV