Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Boða nær grímulaust líf í Bandaríkjunum

epa09198229 US President Joe Biden gives remarks on the new Covid-19 Centers for Disease Control mask guidelines in the Rose Garden, at the White House in Washington, DC, USA, 13 May 2021. Fully vaccinated people no longer need to wear a face mask or stay six feet away from others in most settings, whether outdoors or indoors, the Centers for Disease Control and Prevention said in updated public health guidance released on 13 May.  EPA-EFE/TASOS KATOPODIS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Bandarísk heilbrigðisyfirvöld hafa gefið grænt ljós á nær grímulaust líf fyrir fullbólusetta Bandaríkjamenn. Grímuskylda hefur víða verið í gildi í Bandaríkjunum síðustu mánuði. Reglur um grímunotkun eru nokkuð misjafnar á milli ríkja en skylt hefur verið að bera grímur í öllum alríkisbyggingum og almenningssamgöngum hvers konar. Þá hefur bandaríska sóttvarnastofnunin eindregið hvatt til grímunotkunar í fjölmenni, innan dyra jafnt sem utan, jafnvel þótt það sé ekki skylda í viðkomandi ríki.

 

Þeim tilmælum var hins vegar breytt í gær þegar sóttvarnastofnunin sagði fullbólusettu fólki óhætt að taka niður grímuna í sínu daglega lífi, jafnvel í fjölmenni utan dyra og í vel flestum aðstæðum innan dyra líka. Ástæðan er sú, að mikill meirihluti fullorðinna Bandaríkjamanna hefur nú verið bólusettur með fyrri skammti og um helmingur þeirra telst fullbólusettur. Að sama skapi hefur mjög dregið úr nýsmitum og alvarlegum veikindum vegna COVID-19.

Þó er enn kveðið á um grímuskyldu í fjölmenni í lokuðu rými, svo sem í rútum og strætóum, flugvélum, sjúkrahúsum og fangelsum. Hins vegar ryður þetta brautina fyrir aukna starfsemi á fjölmennum vinnustöðum, skólum, íþróttaleikvöngum undir berum himni og fleiri stöðum.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði daginn í gær mikinn gleðidag. Í ávarpi sem hann flutti í Rósagarðinum við Hvíta húsið, fagnaði hann nýjum tilmælum sóttvarnastofnunarinnar og hvatti landa sína til að drífa sig í bólusetningu. „Látið bólusetja ykkur - eða berið grímu þangað til þið gerið það," sagði forsetinn.