Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vill tvöfalt meira bóluefni og réttlátari dreifingu

epa09194929 U.N. Secretary-General Antonio Guterres attends a news conference following talks with Russian Foreign Minister Sergei Lavrov in Moscow, Russia, 12 May 2021. U.N. Secretary-General Guterres is on a working visit in Moscow.  EPA-EFE/MAXIM SHEMETOV / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallar eftir því að lyfjaframleiðendur tvöfaldi framleiðslu sína á bóluefnum gegn COVID-19 og hvetur til réttlátari dreifingar á þvi bóluefni sem til er. Yfirgnæfandi meirihluti þess fer til ríkustu landa heims, en þróunarríki og önnur lönd sem ekki standa jafnfætis þeim allra ríkustu sitja eftir með sárt enni. Þetta segir Guterres bæði óréttlátt gagnvart fátækari ríkjunum og skaðlegt fyrir heimsbyggðina alla.

 

Hann bendir á að faraldurinn sé aftur í sókn í þriðja heiminum og að mikill skortur sé þar á bóluefnum. Þetta eigi ekki síst við um Indland, þar sem önnur bylgja farsóttarinnar geisar af svo miklum þunga. Svo miklum, að sjúkrahús landsins skortir allt í senn gjörgæslurými, almenn legurými og mikilvæg lyf og lækningavörur af öllu tagi.

Á sama tíma hafa sum ríkustu lönd heims lokið við að bólusetja viðkvæmustu hópana og eru farin að bjóða ungu og hraustu fólki að mæta í bólusetningu, segir Guterres. Þá hafi mörg auðug ríki tryggt sér nægt bóluefni til að fullbólusetja þjóðina í tvígang og jafnvel oftar.

Óásættanlegt og skaðlegt misrétti

„Það er algjörlega óásættanlegt að búa í heimi, þar sem þróuð ríki geta bólusett mikinn meirihluta borgara sinna, á meðan mörg þróunarlönd hafa ekki aðgang að svo mikið sem einum bóluefnaskammti,“ sagði Guterres þegar hann ræddi við fréttamenn að loknum fundi þeirra Sergeis Lavrovs, utanríkisráðherra Rússlands, í Moskvu í gær.

Hann sagði hættu á að stökkbreytt afbrigði veirunnar næðu að grassera og breiðast út með ógnarhraða í fjölmennum ríkjum þar sem hægt eða ekkert gengur að bólusetja. „Þannig að það er í allra þágu að öll séu bólusett alstaðar. Við erum sannfærð um að við þurfum að gera tvennt: Að tvöfalda framleiðslu bóluefna og tryggja sanngjarnari dreifingu þeirra um leið.“