Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ísraelsher tilkynnti innrás í Gasa í kvöld

epa09197547 An Israeli artillery shellis targets in the Gaza Strip  as the escalation continues between the Israeli Army and Hamas forces at the Gaza Border, Israel, 13 May 2021. Clashes erupted over the forced eviction of six Palestinian families from their homes in Sheikh Jarrah neighborhood in favor of Jewish families who claimed they used to live in the houses before fleeing in the 1948 war that led to the creation of Israel. In response to days of violent confrontations between Israeli security forces and Palestinians in Jerusalem, various Palestinian militants factions in Gaza launched rocket attacks since 10 May that killed at least six Israelis to date. The Gaza Strip's health ministry said that at least 65 Palestinians, including 13 children, were killed in the recent retaliatory Israeli airstrikes. Hamas confirmed the death of Bassem Issa, its Gaza City commander, during an airstrike.  EPA-EFE/ATEF SAFADI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelsher tilkynnti innrás á Gasa í kvöld, og Jonathan Conricus, talsmaður hersins staðfesti .þetta í samtali við AFP-fréttastofuna. Á annað hundrað Palestínumanna hafa fallið í árásum Ísraela síðustu daga, þar af 27 börn. UPPFÆRT: Ísraelsher hefur dregið til baka yfirlýsingu sína um að innrás sé hafin og lýst því yfir að herinn hafi enn ekki ráðist inn á Gasasvæðið.

Í seinni tilkynningu hersins segir að sú fyrri hafi verið send út fyrir mistök. Hins vegar er Ísraelsher með mikinn viðbúnað og mannafla við landamærin og harðar loftárásir og stórskotahríð hafa dunið á Gasasvæðinu í allt kvöld.  

Hamas hefur skotið á annað þúsund flugskeytum að Ísrael frá því átökin hófust fyrir alvöru á mánudag en talsvert hefur dregið úr flugskeytahríðinni í kvöld, frá því sem mest var. 

Ísraelsher hefur hins vegar aukið þungann í loftárásum sínum með hverjum deginum frá því á mánudag. Í dag lagði yfirstjórn hersins áætlun um innrás á jörðu niðri fyrir ríkisstjórn landsins og tók að draga saman mikið lið við landamærin að Gasa. Þúsundir varaliða í ísraelska hernum voru svo kallaðar að landamærunum í kvöld, fastahernum til halds og trausts.  

Samkvæmt upplýsingum heilbrigðisyfirvalda á Gasa hafa alls 109 dáið í árásum Ísraela á borgina síðan á mánudag. Meirihluti þeirra er almennir borgarar, þar á meðal 27 börn og 11 konur. Hátt í 600 hafa særst og leitað aðhlynningar á sjúkrahúsum. Í Ísrael hafa sjö látið lífið vegna flugskeytaárása Hamasliða, þar af eitt barn.

Ráðist á ísraelska Araba í borgum Ísraels

Æ fleiri fregnir berast af árásum hópa ísraelskra ofsatrúargyðinga og þjóðernissinna á ísraelska Araba í blönduðum hverfum ísraelskra borga, og gildir þá einu hvort þeir eru múslímar, kristnir eða drúsar.

Al Jazeera hefur eftir Riya al-Sanah, arabískum Haífa-búa og baráttumanni, að hundruð síonista hafi farið um borgina í gær í leit að Aröbum til að ráðast á, og lögregla ýmist staðið aðgerðalaus hjá eða tekið beinan þátt í ofbeldinu. 

Sjá líka: „Liggur alveg fyrir að þessi landtaka er ólögmæt“

„Við þurfum að koma einu á hreint, segir al-Sanah. „Þetta er ekki borgarastyrjöld. Við Palestínumenn í hinu svokallaða Ísrael erum þjóð í hernumdu landi." Hann segir mikinn ótta meðal Palestínumanna í Ísrael.

„Við stöndum ekki einungis frammi fyrir skipulögðu ofbeldi af hálfu Ísraelsríkis, lögreglunnar og hersins, heldur sjáum við núna líka skipulagða og vopnaða hópa síonista fara um götur borgarinnar, leita að Palestínumönnum og ráðast á þá," segir al-Sanah.

Sjá líka: Heimurinn getur fylgst með

Fram kemur á vef al Jazeera að í Haífa hafi menn farið um blönduð hverfi borgarinnar í gærkvöld og merkt heimili Araba til að auðvelda ofbeldismönnunum leitina. 

AFP greinir frá því að einnig hafi borist fréttir af því að ráðist hafi verið á Gyðinga í þessum hverfum á síðustu dögum, og að ráðist hafi verið að lögreglustöðvum. Lögreglustöðvar á Gasa voru á meðal helstu skotmarka ísraelska flughersins í byrjun vikunnar, og eru þær nú rústir einar. 

Fundi í Öryggisráðinu frestað

Bandaríkin frestuðu í dag fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem halda átti á morgun um ástandið í Ísrael. Antony Blinken, utanríksráðherra Bandaríkjanna, sagði aðspurður Bandaríkin ekki vera að blása fundinn af heldur fresta honum. Hann kvaðst búast við að hann verði haldinn snemma í næstu viku. Nýjustu fregnir herma að fundurinn verið haldinn á sunnudag.

Egyptar hafa freistað þess að miðla málum en viðleitni þeirra hefur engu skilað, frekar en friðar- og samningaumleitanir annarra sem það hafa reynt.  

Fréttin hefur verið uppfærð.