Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Íslensk bókasöfn lána aðallega út hljóðbækur á ensku

Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason / RÚV/Landinn

Íslensk bókasöfn lána aðallega út hljóðbækur á ensku

13.05.2021 - 08:00

Höfundar

Hljóð- og rafbækur sem íslensk bókasöfn lána út eru flestar á ensku því ekki hafa náðst samningar við íslenska bókaútgefendur. Björk Hólm Þorsteinsdóttir, formaður stjórnar Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna segir að það sé hæpið að berjast fyrir því að íslensk börn lesi meira þegar aðgengi þeirra að hljóð- og rafbókum sé heft. Samtökin hafa nú beðið menntamálaráðherra um aðstoð.

Einungis fáar hljóðbækur eru á íslensku

Vinsældir hljóðbóka hafa farið vaxandi undanfarin misseri og fyrirtækið Sorytel hefur verið ráðandi á markaðnum hér á landi. Ef farið er inn á vefsíðu Storytel birtast kynningar á íslenskum hljóðbókum og sjá má að það kostar 2.890 krónur á mánuði að vera í áskrift hjá fyrirtækinu, samtals 34.680 krónur á ári. Það er ódýrasta áskriftaleiðin. 

Einnig er hægt að fá lánaðar hljóð- og rafbækur á almenningsbókasöfnum landsins en flestar bækurnar þar eru á ensku. Bókasafnskort gefur aðgang að öllum bókum safnsins í hvaða formi sem þær eru og það kostar 2500 krónur á ári. Börn og unglingar undir 18 ára aldri, og 67 ára og eldri fá bókasafnsskírteini gjaldfrjálst. 

Af 8.000 titlum í hljóð- og rafbókasafni almenningsbókasafna hér á landi eru einungis um 770 á íslensku og mikið af því er gamalt efni sem komið er úr höfundarrétti. 

Björk Hólm Þorsteinsdóttir, formaður stjórnar Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna segir að ekki hafi  náðst samkomulag um það að útgefendur selji bókasafninu íslenskt efni til bjóða upp á á rafbókasafninu.  

Einungis einn í einu 

Björk segir að úttekt á hljóð- og rafbókum lúti sömu lögmálum og úttekt á venjulegum bókum þ.e. ef einhver tekur að láni hljóðbók getur enginn annar tekið hana út á meðan. Einungis einn í einu getur lesið hverja bók. Þrátt fyrir það hafa ekki náðst samningar

„Það hafa verið sett fram tilboð um að kaupa bækurnar inn á safnið þannig að það sé í raun og veru bara hægt að lesa hana 20 sinnum eða sjaldnar og þá þurfi bókasafnið að kaupa hana upp á nýtt. Og þetta er náttúrlega allt öðruvísi en gengur og gerist með hefðbundin bókasöfn þar sem þú kaupir pappírsbók og svo er hún lesin þangað til kjölurinn dettur í sundur.“

Efnisveitan OverDrive

Samningaviðræður milli almenningssafna og bókaútgefenda hófust þegar rafbókasafnið var stofnað 2017  
Íslensk almenningsbókasöfn hafa samið við efnisveituna OverDrive um rekstur hljóð- og rafbókasafnsins. Það fyrirtæki rekur slíkar veitur fyrir bókasöfn

„Og fyrirkomulagið er þannig að útgefendur semja um verð og útlánaskilyrði við OverDrive og það fyrirtæki tryggir síðan þeirra réttindi. OverDrive er afar strangt hvað varðar réttindi útgefenda og rafbókasafninu er því alls ekki heimilt að kaupa bækur á almennum markaði og setja þarna inn. En þetta bara strandar þar. Þessar viðræður hefjast og þær ná síðan bara ekkert lengra. Þetta hefur bara alls ekki gengið vel. 

Bókaútgefendur hafa óttast að efni í rafbókasöfnum verði misnotað eða því stolið. Björk segir að ekki séu meiri líkur á því að það gerist hjá þeim frekar en öðrum efnisveitum. Auk þess hafi komið í ljós að þegar efni sé gert aðgengilegt með löglegum hætti þá dragi það úr þjófnaði. Hugverkastuldur á tónlist og kvikmyndum hafi til dæmis minnkað eftir að Spotify og Netflix tóku til starfa.  

Samið við erlenda bókaútgefendur en ekki íslenska

„En skil ég þetta þá rétt að bókasöfnin hafa ekki getað samið við íslenska bókaútgefendur en eru með samninga við erlenda bókaútgefendur? Já, þú skilur þetta bara hárrétt. Það eru einstaka íslenskir höfundar sem hafa gert beina samninga við rafbókasafnið um sitt efni.“  

Björk segir að það geti haft alvarlegar afleiðingar að ekki sé hægt að nálgast raf- og hljóðbækur á íslensku á almenningsbókasöfnum. Fyrst og fremst þá finnst okkur að aðgengi almennings að íslenskum bókum megi ekki að vera bundið efnahag, að þeir sem borgi til einkafyrirtækis séu þeir einu sem geti nýtt sér þetta form. Það er ekki ásættanlegt fyrir almenning í landinu. Notendur almenningsbókasafna ættu að geta nálgast íslenskt efni í hvaða formi sem er hvort sem það er ætlað börnum eða fullorðnum. Þetta er réttindamál fyrir okkur öll. Þetta er mikilvægur liður í að viðhalda og efla læsi og mér finnst hæpið að berjast fyrir því að börnin okkar og þjóðin lesi meira og viðhaldi íslenskri tungu ef aðgengi þeirra að hljóðbókum og rafefni er bara heft með þessum hætti.“

Útlán raf- og hljóðbóka hafa aukist gífurlega

Vinsældir hljóð- og rafbóka hafa rokið upp síðan 2019 og er auðvelt að tengja þær við heimsfaraldurinn. Tíu þúsund fjögur hundruð níutíu og eitt útlán hafa verið á rafbókasafninu það sem af er þessu ári, frá janúar til maí. Þetta eru bæði hljóð- og rafbækur. Á sama tímabili árið 2019 voru þau útlánin 8711. Það ár var íslenskt efni 550 titlar eða 6% og árið 2020 voru það 15% og svo 11 prósent.

Ákall til menntamálaráðherra um aðstoð

Samtök forstöðumanna íslenskra bókasafna sendu menntamálaráðherra bréf í desember þar sem þau kalla eftir því að ráðuneytið komi til hjálpar. Til eru lög hér á landi sem heita stuðningur við útgáfu bóka á íslensku og er markmið þeirra er að efla útgáfu íslenskra bóka með því að endurgreiða bókaútgefendum hluta kostnaðar sem fellur til við útgáfu bókanna.
 
„Í þeim lögum segir einnig að bók teljist gefin út og gerð aðgengileg almenningi þegar hún hefur verið samþykkt í alþjóðlega bókanúmerakerfið hjá Landsbókasafni Íslands, skráð í bókasafnskerfið Gegni eða í sambærilegt skráningarkerfi erlendis og boðin opinberlega til sölu láns eða leigu. Þarna finnst okkur að bókaútgefendur séu ekki að standa við sinn hluta þessara laga af því þeir eru að fá niðurgreiðslu frá ríkinu en uppfylla ekki öll skilyrðin sem sett eru fyrir þessari niðurgreiðslu. Þarna er komið eitthvað sem ráðuneytið getur beitt sér fyrir og hreinlega gengið í málið með okkur. Af því hér standa tveir hópa sem ná ekki samningum um eitthvað sem ætti að vera borðleggjandi. Við sendum þetta erindi sem ákall um aðstoð til þess að halda áfram með þessar samningaviðræður. “