Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gefa lítið fyrir afsökunarbeiðni Borisar Johnson

13.05.2021 - 12:54
Mynd: AP / AP
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur beðist afsökunar á framgöngu breskra hermanna sem skutu tíu manns til bana í Ballymurphy hverfinu í Belfast á Norður Írlandi árið 1971. Ættingjar þeirra sem létust gefa hins vegar lítið fyrir afsökunarbeiðnina.

Í ágúst árið 1971 réðst bresk herdeild inn í Ballymurphy-hverfið í Belfast á Norður-Írlandi. Tíu óbreyttir borgarar voru skotnir til bana í þriggja daga umsátursástandi í hverfinu. 

Ættinginar hinna látnu hafa allar götur síðan viljað láta rannsaka dauðsföllin og hreinsa látna ættingja sína af ásökunum um að hafa verið vopnuð eða á mála hjá Írska lýðveldishernum. Réttarrannsókn á atburðunum hófst árið 2018 og niðurstaða rannsóknarinnar var tilkynnt á þriðjudag. 

Þar segir meðal annars að þau tíu sem létust hafi öll verið óvopnuð og hafi á engan hátt ógnað hermönnunum eða sýnt af sér hegðum sem réttlætir eða útskýrir örlög þeirra. Ættingjar fögnuðu niðurstöðunni en gagnrýndu harðlega framgöngu og frásagnir hersins og þátttöku breskra stjónvalda í að þagga málið niður. 

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hringdi í Arlene Foster fyrsta ráðherra Norður Írlands, í gær og baðst afsökunar fyrir hönd bresku stjórnarinnar. Yfirlýsingu sama efnis birti hann skömmu síðar. 

John Teggart, er einn þeirra sem gaf hinsvegar lítið fyrir afsökunarbeiðni forsætisráðherrans. Faðir Teggarts, Daniel, er einn þeirra tíu sem voru skotin til bana í Ballymurphy hverfinu. Hann segir afsökunarbeiðnina almenns eðlis, henni sé ekki beint til aðstandenda þeirra sem létust. Þau hafi aldrei hitt né heyrt neitt frá ráðamönnum Bretlands.

Móðir Briege Voyle er ein þeirra sem var drepin. Hún sagði á fréttamannafundi í gær að breski herinn hefði logið um atburðarásina þarna fyrir fimmtíu árum og haldið sig við þá lygasögu allar götur síðan. Breska ríkisstjórnin hafi hylmt yfir með hernum og kallað skömm yfir sig. 

„Móðir mín var ekki byssukona. Niðurstaðan er skýr, hún var saklaus,“ sagði Voyle.

Herdeildin sem réðst til atlögu í Ballymurphy árið 1971 var fimm mánuðum síðar send til Derry þar sem fjórtán mótmælendur féllu í valinn. Sá dagur hefur allar götur síðan verið kallaður blóðugi sunnudagurinn. 

  • Umfjöllun um málið úr kvöldfréttum sjónvarps í gær má sjá í spilaranum hér að ofan. 
Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir