Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Engin leið að rekstur Hörpu verði sjálfbær

Mynd: Anton Brink / RÚV

Engin leið að rekstur Hörpu verði sjálfbær

13.05.2021 - 09:43

Höfundar

Njörður Sigurjónsson, doktor í menningarstjórnun, segir að draugur einkaaðila fylgi Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi, sem fagnar þessi dægrin 10 ára afmæli. „Þessi hugmynd um að hægt sé að reka þetta hús eins og hvern annan tónleikasal eða bissness er algerlega óraunhæf.“

Bygging Hörpu á sér langan aðdraganda, sem sumir rekja allt aftur til 1881 þegar fyrsta áskorunin um byggingu tónlistarhúss birtist í tímaritinu Þjóðólfi. Árið 2004, fimm árum eftir að tilkynnt var um að reisa ætti tónlistar- og ráðstefnuhús í miðborg Reykjavíkur var efnt til samningskaupaferils innan ramma einkaframkvæmdar. Fjögur félög lögðu fram tilboð. Þar á meðal var eignarhaldsfélagið Portus og þótti tilboðið þaðan vænlegast.

Njörður Sigurjónsson, doktor í menningarstjórnun og prófessor við Háskólann á Bifröst, tók þátt í ferlinu frá því samningar náðust við Portus. Þegar skriður komst á málin á árunum 2003-2007 var flogið hátt, all bókstaflega í tilfelli Portus-hópsins, eins og Njörður lýsir í þættinum Harpa tíu ára, sem fluttur er á Rás 1 í dag kl. 13 í tilefni af stórafmæli hússins.

„Við flugum í einkaþotum á milli landa og það var náð í fólk í sumarhúsin þeirra. Þegar maður lenti á flugvellinum biðu okkar stórir svartir jeppar sem Íslenskir aðalverktakar útveguðu. Þetta voru svo skemmtilegir hópar sem bitust um þetta, þeir samanstóðu af arkitektum, bönkum og framkvæmdaaðilum. Bankinn var kjarninn í þessu og í okkar tilfelli var það Landsbankinn og Björgólfur Guðmundsson, sem tekur þetta upp sem sitt verkefni, að ná þessu í gegn.“ Verðmiðinn á Hörpu bólgnaði talsvert í ferlinu, segir hann. Fór úr upphaflegri áætlun um fimm milljarða og upp í 12 milljarða.

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV

„Þessi bakgrunnur hússins skýrir að einhverju leyti væntingar fólks um að það sé hægt að reka þetta hús fyrir pening,“ segir Njörður. Það hafi ávallt verið hluti af samningnum að einkaaðilar myndu reka húsið fyrir eigin reikning og ríki og borg hlyti engan kostnað af húsinu. Þegar fjármálakerfið hrundi gjörbreyttist landslagið en eftir situr hugmyndin um að hægt sé að reka Hörpu eins og einkaaðilarnir lögðu upp með, segir Njörður.

„Sá draugur fylgir þessu húsi og gengur þar um ganga. Hann birtist í fjölmiðlum jafnvel, einu sinni á ári til tvisvar, í kringum birtingu ársreikninga félagsins og þegar einhver á Alþingi spyr um kostnað við byggingu hússins. Það er mjög áhugavert að sjá þessar fyrirspurnir í gegnum árin.“

Menningarlegir innviðir Íslands á við milljónaþjóðir

Rekstur Hörpu er hins vegar viðskiptalíkan sem mun aldrei nokkurn tímann bera sig í skilningi sjálfbærs rekstrar, segir Njörður. „Þessi hugmynd um að hægt sé að reka þetta hús eins og hvern annan tónleikasal eða bissness er algerlega óraunhæf. Auðvitað er það svo. Í fyrsta lagi er það upphafskostnaðurinn sem ríki og borg þurfa að standa straum af og hins vegar er reksturinn svo kostnaðarsamur.“

Raunar sé sjálfbærni misráðið hugtak í þessu samhengi. „Það er engin leið að svona fjárfesting skili eða standi undir sér á einhverjum markaðslegum grunni. Ísland er 370.000 manna þjóð. Þumalputtareglan í Bretlandi, til dæmis, er að það þurfi eina milljón í borg til að reka eina sinfóníuhljómsveit. Við erum með allavega tvær. Við erum að reka menningarlega innviði á við milljónaþjóðir. Ekkert af þessu er sjálfbært í einhverjum skilningi. Það er ekki hugmyndin á bak við þetta.“

Njörður segir að það þyrfti að einfalda rekstur hússins, mögulega með því að aðskilja rekstur frá viðhaldi þess. „Það er ofboðslega dýrt og í raun engir aðrir sem geta gert það en ríki og borg. Það eru þau sem borga með húsinu og borga af skuldabréfinu en á sama tíma fá þau svo miklar tekjur af fasteignagjöldum og sköttum. Bara skatttekjur af allri starfsemi hússins skila til baka í þessa sömu sjóði,“ segir hann. „Þessi saga af kostnaði hússins og hver borgar og úr hvaða vösum, það er tekið úr einum vasa og sett í hinn. Hugtakið sjálfbær rekstur, inn á milli í þessari hringsögu, á ekki við held ég. Það er engin leið að svona hús beri sig í rekstrarlegum skilningi. Hvergi á byggðu bóli er það raunin, það er ekki þannig sem svona hús eru hugsuð í grunninn.“

Í tilefni tíu ára afmælis skoðum við sögu Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss Reykjavíkur. Byggingar sem fyrir löngu hefur fest sig í sessi sem mikilvægur hlekkur í menningarlífi þjóðarinnar og sem eitt helsta kennileiti borgarinnar. Við skoðum menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg áhrif Hörpu og spyrjum hvaða þýðingu það hafi fyrir þjóðina að eiga slíkt hús. Þátturinn er á Rás 1 kl. 13.