Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Yfir fjörutíu fallin í blóðugum mótmælum í Kólumbíu

12.05.2021 - 04:50
epa09184401 A man waves an upside down Colombian flag made to look as if stained with blood as he  participates in a day of protests at the Parque de los Deseos in Medellín, Colombia, 07 May 2021. Different social sectors join the national days of protests with cultural events.  EPA-EFE/Luis Eduardo Noriega A.
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Minnst 42 hafa látið lífið í mótmælaaðgerðum í Kólumbíu að undanförnu - einn lögreglumaður og 41 mótmælandi. Umboðsmaður mannréttinda í Kólumbíu greinir frá þessu. Tugir þúsunda hafa tekið þátt í nær daglegum mótmælum gegn forseta og ríkisstjórn Kólumbíu í öllum helstu borgum landsins frá 28. apríl.

Lögregla hefur mætt mótmælendum af svo mikilli hörku að þetta eru orðnar mannskæðustu mótmælaaðgerðir síðan 2016. Þá mótmælti fólk friðarsamningum sem þáverandi stjórnvöld gerðu við FARC-hryðjuverkasamtökin til að binda enda á áratugalanga borgarastyrjöld.

Kólumbísk mannréttindasamtök telja að enn fleiri hafi fallið í átökum síðustu daga, eða ekki færri en 47. Minnst 39 hinna látnu, segja samtökin, eru fórnarlömb lögregluofbeldis.

Varnarmálaráðuneytið segir 849 lögreglumenn hafa særst og meiðst í átökunum en yfirvöld hafa ekki uppfært áætlaðan fjölda særðra úr röðum mótmælenda síðan 3. maí, en þá voru þeir 306 talsins samkvæmt opinberum tölum.

Áfram mótmælt þrátt fyrir hörku lögreglu og eftirgjöf forseta

Lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir hörku sína, jafnt innan Kólumbíu sem utan, en Ivan Duque, Kólumbíuforseti lofar frammistöðu hennar og segir hana hafa farið að lögum í einu og öllu. Hann heitir þó rannsókn á mögulegum brotum einstakra laganna varða.

Mótmælin byrjuðu sem viðbragð við boðuðum skattalagabreytingum, sem fólu í sér hærri álögur á fátækustu þjóðfélagshópana. Þau þróuðust þó fljótlega út í almennari mótmæli gegn forsetanum og stjórn hans, sem sökuð eru um úrræðaleysi í baráttunni gegn viðverandi óöld, djúpri efnahagskreppu og heimsfaraldri kórónaveirunnar. Það dugði því skammt til að lægja reiðiöldurnar, þegar forsetinn féll frá hinum umdeildu skattalagabreytingum.