Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tveir með indverska afbrigðið og dvelja í sóttvarnahúsi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ljósmynd
Þrjú kórónuveirusmit greindist innanlands í gær. Einn þeirra smituðu var ekki í sóttkví. Að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis á eftir að greina uppruna þess smits betur. Eitt smit greindist á landamærunum. Almannavarnarstig vegna faraldursins verður fært af neyðarstig niður á hættustig í dag.

Sá sem var utan sóttkvíar tengist ekki fyrri hópsýkingum og er nýkominn til landsins. Rúmlega 1.400 innanlandssýni voru tekin í gær sem Þórólfur segir af hinu góða. Sjö hafa greinst utan sóttkvíar undanfarna viku.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra greindust tvö ný smit á Sauðárkróki í gærkvöldi. Nú eru tíu í einangrun í umdæminu og 345 í sóttkví. 

Nýgengi smita innanlands er nú 16,1 á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur en 2,7 á landamærunum. Smitum hefur fækkað nokkuð á landamærunum undanfarið. Flest smit við landamærin eru af breska afbrigðinu.

Tveir hafa greinst með indverska afbrigði veirunnar á landamærunum og hafast nú við í sóttvarnarhúsi. Það sé ekki óviðbúið í ljósi stöðu faraldursins erlendis. Þórólfur segir álagið á starfsfólk við landamæri og í sóttvarnarhúsum mikið.

Hans mat er að vel hafi gengið að fást við þau hópsmit sem upp hafi komið undanfarna daga en að ekki eigi að koma á óvart að einstaka ný smit komi upp í samfélaginu. Næstu dagar skeri frekar úr um hvernig til hafi tekist.

Ferðamönnum muni fjölga til landsins á næstu vikum. Því sé útlit fyrir að fara þurfi í breytingar í skimunum á landamærunum og tryggja þurfi frekara rými í sóttvarnahúsunum til að framfylgjandi gildandi lögum og reglum.

Álagið varðandi ferðamennina verði mest í  júní og júlí en að því loknu verði bólusetning orðin það útbreidd að litlar áhyggjur þurfi að hafa af útbreiddum faröldrum þótt einstaka smit sleppi inn í landið. 

Nú eru alls 483 í sóttkví og 75 í einangrun með virkt smit. Þrír eru inniliggjandi á sjúkrahúsi. Einn er á gjörgæslu en ekki í öndunarvél að því er fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.
markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV