Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Trump vildi að mótmælendur nytu verndar í óeirðunum

epaselect epa08923457 Supporters of US President Donald J. Trump stand by the door to the Senate chambers after they breached the US Capitol security in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Protesters stormed the US Capitol where the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden took place.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: Jim Lo Scalzo - EPA
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, vildi að sveitir þjóðvarðliðsins myndu vernda mótmælendur sem síðan enduðu á því að ráðast inn í þinghúsið í Washington 6. janúar. Fimm létust í óeirðunum.

Reuters greinir frá vitnisburði Christopher Miller, sem var starfandi varnarmálaráðherra Trumps, vegna rannsóknar sem nú stendur yfir vegna óeirðanna. Miller sagðist hafa rætt við forsetann þremur dögum fyrir eldræðu þar sem Trump hvatti til mótmæla, sem síðan fóru úr böndunum.

Samkvæmt vitnisburðinum átti Trump að hafa óskað eftir því við Miller að mótmælendurnir yrðu verndaðir af þjóðvarðliðinu og það tryggt að þeir gætu nýtt stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla. 

Miller var spurður að því hvers vegna þjóðvarðlið var ekki kallað á vettvang fyrr en mótmælendur voru búnir að brjóta sér leið inn í þinghúsið. Hann sagðist hafa óttast að ef hermenn yrðu sendir á vettvang fyrir mótmælin myndu hlutirnir fara úr böndunum.  Hann viðurkenndi að hersveitum hefðu því vísvitandi verið haldið frá vettvangi og ekki getað gripið inn í fyrr en í óefni var komið.

Forsetinn hvatti til þess í ræðu að stuðningsmenn hans myndu safnast saman 6. janúar, daginn sem atkvæði kjörmanna í bandarísku forsetakosningunum voru talin í þinghúsinu. Fimm létust þegar múgurinn ruddist inn í þinghúsið og komst inn í þingsalinn og á skrifstofur þingmanna.