Tónlist eftir átján borholur og eina virkjun

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn

Tónlist eftir átján borholur og eina virkjun

12.05.2021 - 08:35

Höfundar

„Ég skynja tónlistina sem listform og ég hef ekki áhuga á því að skipa henni bás í klassískt form. Ég hef meiri áhuga á að hlusta á það sem fyrir er og þá einkum í náttúrunni sem í reynd er músík,“ segir Konrad Korabiewski, listamaður. Konrad býr á Seyðisfirði en sækir efnivið fyrir verk, sem hann vinnur nú að, í Kröfluvirkjun og borholur hennar.

„Allt sem gefur frá sér hljóð í borholunum og í umgjörðinni. Ég reyni að hlusta á það og taka saman í eitt stórt verk sem að endingu verður að plötu og hljóðmyndarkonsert.“

Verkið sem Konrad vinnur nú að hefur skírskotun í verk eftir Steve Reich sem heitir Tónlist fyrir átján hljóðfæraleikara og kallast verkefni Konrad Tónlist eftir átján borholur og eina virkjun. 

„Hér eru kannski sex-sjö mismunandi hljóð sem má setja saman í eitt verk. Á öllu svæðinu eru ef til vill hundrað skynbrigði sem skilja sig hvert frá öðru og eru ekki eins þó svo að þau hljómi ámóta en gera það ekki þegar hlustað er á þær.  - Það eru borholur og svo það sem kallast hvelfing yfir; næsta leiðsla er með annað þrýstifyrirkomulag svo að hljóðið flyst á annan hátt og hljómar öðruvísi. Svona heldur þetta áfram allan hringinn um allt svæðið. - Ég kafa ofan í hvern og einn stað og hlusta á hrinurnar og greini smáatriðin og mismuninn.“

Konrad hefur safnað mismunandi hljóðum með mismunandi upptökutækni en þennan dag er hann líka að safna myndum sem verða hluti af verkinu.  
„Maður getur gert sér mynd í huganum af því hvernig sum hljóð líta út og það er dularfullt og indælt en sumir hafa ríka þörf til að sjá hlutina. Og um það vil ég segja að það er afa áhugavert; svo að ég hef byrjað að útfæra verkið hljóðmyndrænt en öflugusti þáttúrinn er samt músíkin.“