Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Svandís segir hugsanlegar afléttingar í næstu viku

Svandís Svavarsdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Til greina kemur að rýmka samkomutakmarkanir í næstu viku og auka þann fjölda sem má koma saman. Þetta segir heilbrigðisráðherra. Hugsanlega verður líka dregið úr tveggja metra fjarlægðarreglunni.

Fyrir tveimur vikum kynnti ríkisstjórnin áætlun um afléttingu sóttvarnaaðgerða innanlands. Þar kom fram að þegar 35% landsmanna yfir 16 ára aldri væru bólusett gætu samkomutakmarkanir farið upp í allt að 200 manns. Þegar helmingur yrði bólusettur mættu 100-1.000 manns koma saman.

Núna er bólusetningarhlutfallið orðið 49% samkvæmt covid.is og samkomutakmarkanir miðast við 50.  Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að þar sem bólusetningar gangi vel megi búast við frekari rýmkunum.

„Þannig að ég á von á að við höldum áfram að tilkynna um afléttingar í næstu eða þarnæstu viku,“ segir Svandís.

Til hvers er þá verið að horfa til? „Það er bara það sem við sjáum í afléttingaráætluninni okkar. Það snýst þá um ennþá aukinn fjölda sem megi koma saman, tiltekna starfsemi þar sem mega vera fleiri og þá mögulega að draga úr þessari tveggja metra reglu. Það gæti verið einn metri, að minnsta kosti í tilteknum tilvikum. Vonandi stefnir þetta núna í það að við getum aflétt þessu í eitt skipti fyrir öll.“

Þannig að við gætum séð að allt að 200 manns mættu koma saman frá og með næstu viku?  „Ég ætla ekkert að segja um það,“ segir Svandís.