Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sóttvarnalæknir fagnar bólusetningaöfund

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Sóttvarnalæknir fagnar þeirri bólusetningaröfund sem virðist sprottin upp hjá óbólusettu fólki. Það sé ánægjulegt að fólk vilji bólusetningu. Ekki liggur fyrir hverjir verða bólusettir í næstu viku. 

Upplýsingafundur almannavarna í dag hófst á þessum tíðindum.

„Í dag munum við færa almannavarnastig af neyðarstigi niður á hættustig,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn í almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Þrjú kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, eitt þeirra utan sóttkvíar. Sá var nýlega kominn til landsins og er málið til skoðunar. Eitt smit greindist á landamærunum. Indverska afbrigðið hefur greinst tvisvar sinnum á landamærunum. Þeir smituðu eru í farsóttarhúsi.

Samkvæmt nýlegri rannsókn vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar minnka líkur á útbreiddum smitum með því að bólusetja fyrst fólk á miðjum aldri.

„Það er bara mjög skynsamlegt að gera það og það er það sem við munum reyna. En við erum að reyna núna að klára þessa forgangshópa sem eru skilgreindir í reglugerðinni og það verður líka gert þvert á aldur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sóttvarnalæknir.

Þó svo að tíðar myndir af stungum í handleggi fari fyrir brjóstið á sumum þá eru þeir líklega fleiri sem horfa á þær löngunaraugum. Núna er dálítið mikið um bólusetningaöfund í samfélaginu. Hefurðu samúð með því fólki?

„Ja, ég bara lýsi yfir ánægju minni yfir því að fólk skuli vilja fara í bólusetningu. Þá er það ósköp eðlilegt að fólk skuli vera frekar óánægt er Jói í næsta húsi er búinn að fá bólusetningu en ekki ég. En ég minni á að tími allra mun koma. Það væri óskandi að það væri hægt að gera þetta hraðar en við fáum ekki meira bóluefni á hverjum tímapunkti eins og staðan er,“ segir Þórólfur.

Á fólk sem ekki hefur verið bólusett, á það að halda sig til hlés?

„Já, ég held að það eigi að gera það núna, eins og staðan er núna. Ég held líka að bólusettir eigi að fara varlega,“ segir Þórólfur.

Heilbrigðisráðherra vonast til að geta tilkynnt um slakanir á samkomubanni og tveggja metra reglu jafnvel í næstu viku. 

„Núverandi reglugerð tók gildi fyrir tveimur dögum og hún gildir í tvær vikur. Ég sé enga ástæðu til að stytta þann tíma,“ segir Þórólfur.

Þessi upplýsingafundur var ekki rafrænn heldur í raunheimum, hvað kemur til?

„Ja, það er bara svo langt síðan við höfum séð framan í ykkur. Við vildum gjarnan sjá ykkur aftur,“ segir Þórólfur.