Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Snjóbílar notaðir í baráttu gegn gróðureldum

12.05.2021 - 22:38
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Viðbragðsaðilar hafa þurft að beita óvenjulegum leiðum til þess að kljást við gróðurelda sem hafa víða blossað upp sunnan- og vestanlands síðustu daga. Meðal annars var notast við snjóbíla þegar umfangsmikill eldur logaði í Heiðmörk í síðustu viku.

Þá brunnu 56,5 hektarar, samkvæmt mælingum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Eldurinn kviknaði fjarri vegi og því gekk illa að koma búnaði á staðinn. Hátt í eitt hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðunum og lögðu til búnað, meðal annars þrjá snjóbíla. Þeir komu að góðum notum við að flytja þungan búnað og mannskap að eldunum yfir þúfur og erfitt landslag, eins og meðfylgjandi myndskeið frá Landsbjörg sýnir.

Slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu og á Suður- og Vesturlandi hafa farið í að minnsta kosti 30 útköll vegna gróðurelda í mánuðinum. Hjá Brunavörnum Suðurnesja eru útköllin orðin 5, hjá Brunavörnum Árnessýslu 3 en langflest eru þau hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, eða 19 alls. Hættustig var virkjað í fyrsta sinn vegna hættu á gróðureldum.