Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ósáttur við að missa Aron og hættir með Barcelona

epa07618268 Barca's head coach Xavier Pascual Fuertes reacts during the 2019 EHF FINAL4 Handball Champions League semi final match between Barca Lassa and HC Vardar in Cologne, Germany, 01 June 2019.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Ósáttur við að missa Aron og hættir með Barcelona

12.05.2021 - 10:41
Samningur Xavier Pascual, þjálfara sigursæls handboltaliðs Barcelona, verður ekki framlengdur. Samkvæmt fjölmiðlum var ósætti milli Pascual og nýrrar stjórnar félagsins um Aron Pálmarsson.

Í frétt El Pais kemur fram að samningur við Pascual verði ekki framlengdur eftir tímabilið. Hann hefur verið þjálfari liðsins í 12 ár og undir hans stjórn hefur liðið unnið 48 titla þar af tvisvar Meistaradeild Evrópu og ellefu sinnum spænska meistaratitilinn.

Ný stjórn tók nýverið við hjá Barcelona og greint er frá því að ágreiningur hafi orðið milli nýrrar stjórnar og Pascual vegna Arons Pálmarssonar. Pascual hafi lagt mikla áherslu á að framlengja samninginn við Aron en ný stjórn hafi ekki viljað halda honum þrátt fyrir að munnlegur samningur væri í höfn um áframhaldandi dvöl hans hjá félaginu. Greint var frá því í lok apríl að Aron væri á leið til Danmerkurmeistara Álaborgar þar sem hann gerir þriggja ára samning.

Greint er frá því að Pascual telji sig ekki njóta trausts nýju stjórnarinnar og ósættið um Aron hafi, meðal annars, orðið til þess að stjórnin og Pascual komust að samkomulagi um að rifta samningi hans eftir þetta tímabil. Samningur hans átti að renna út um mitt næsta ár.

Í dag og þann 20. maí mætir Barcelona Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Komist liðið áfram í úrslitakeppnina í júní mun Pascual láta að störfum eftir hana.

Tengdar fréttir

Handbolti

Aron Pálmarsson á leið til Álaborgar