Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kynna tillögur um aðgerðir á vinnumarkaði

12.05.2021 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RUV
Formaður Samfylkingarinnar segir brýnt að grípa sem fyrst til aðgerða á vinnumarkaði til að fjölga störfum og hjálpa þeim sem glíma við atvinnuleysi. Flokkurinn ætlar að leggja fram þingsályktunartillögu á næstu dögum um 18 milljarða króna aðgerðarpakka.

 

Samfylkingin kynnti í morgun sex tillögur er snúa að aðgerðum á vinnumarkaði. Tillögurnar gera ráð fyrir að tímabil atvinnuleysisbóta verði lengt um 12 mánuði og að bætur hækki upp í 95 prósent af lágmarkslaunum. Flokkurinn vill að ráðningastyrkir verði veittir í 12 mánuði í stað sex og að veittur verði tímabundinn skattaafsláttur þegar fólk kemur aftur til starfa eftir atvinnuleysi. Þá eru einnig tillögur að atvinnuúrræðum fyrir námsmenn, styrkjum til listafólks og auknum stuðningi við nýsköpun.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir mikilvægt að grípa strax til aðgerða.

„Aðgerðirnar miða fyrst og fremst að því að ná niður atvinnuleysi. Bæta fólki sem hefur verið atvinnulaust upp tekjutap, skapa sóknarfæri fyrir námsmenn. Þannig að þetta er fyrir atvinnulausa, þetta er fyrir ungt fólk og námsmenn. Þetta er til þess að örva og smyrja hjólin sem eru þegar að fara af stað og þetta á að vinna með aðgerðum ríkisstjórnarinnar,“ segir Logi.

Samfylkingin ætlar að leggja fram þingsályktunartillögu á næstu dögum með þessum aðgerðum. Kristrún Frostadóttir frambjóðandi Samfylkingarinnar segir að aðgerðirnar kosti ríkissjóð um 18 milljarða.

„Staðreyndin er sú að ef atvinnuleysi fellur strax um 2 prósent á næsta ári vegna þessara aðgerða þá eru aðgerðirnar strax búnar að borga sig upp. Ef þær falla um eitt prósent þá borga þær sig upp á einu og hálfu til tveimur árum. Þannig að þetta er í rauninni tillaga inn í umræðuna. Alveg eins og við vitum að fyrirtæki fjárfesta til að þess að skapa tekjur síðar meir þá þurfum við að fjárfesta núna í fólki til þess að auka tekjuvöxt í hagkerfinu, auka virkni og draga úr útgjöldum til lengri tíma litið,“ segir Kristrún. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV