Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Heimurinn getur fylgst með

12.05.2021 - 20:20
Enn fleiri féllu í dag í átökum Ísraela og Palestínumanna. Prófessor í Mið-Austurlandafræðum segir að staðan hafi áður verið jafn slæm. Nú séu allir með síma og geti tekið upp það sem gerist og deilt með umheiminum.

Ísraelsher hélt áfram að varpa sprengjum á Gaza í dag. Heilbrigðisyfirvöld á Gaza segja að 53 Palestínumenn hafi fallið í vikunni, þar á meðal 14 börn. Ísraelsher segir að um 1.500 eldflaugum hafi verið skotið frá Gaza á skotmörk víða um Ísrael. Sex Ísraelar eru sagðir hafa fallið.

Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í Mið-Austurlandafræðum við Williams-háskólann í Bandaríkjunum, segir að ástandið núna sé ekki einangrað heldur hluti af áttatíu ára langri deilu. Staðan sé þó einkar viðkvæm núna. „Núna er spennan kannski enn meiri því það er stjórnarkreppa í Ísrael og kannski líka því það er Ramadan-mánuður meðal múslima og margra Palestínumanna og þetta er á mjög viðkvæmum stað og þar af leiðandi er þetta kannski enn ein ástæða til þess að þetta viðkvæma ástand brýst svona út,“ segir Magnús Þorkell.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, tókst ekki að mynda ríkisstjórn á dögunum. Magnús Þorkell segir að ef til vill sé Netanyahu meira núna að hugsa um innanríkispólitík og sína stöðu frekar en viðhorf til Ísraels frá útlöndum. 

Netanyahu segir að þetta sé bara byrjunin

Netanyahu heimsótti spítala í dag þar sem hlúð er að bæði særðum Ísraelum og Palestínumönnum. „Fyrir stuttu útrýmdum við hátt settum foringjum hjá Hamas, meðal annarra foringja Gaza-herliðsins. Þetta er bara byrjunin. Við fellum þá með árásum sem þeir sáu ekki fyrir,“ sagði forsætisráðherrann við fjölmiðla í dag. 

Ástandið frá sjónarhóli Palestínumanna meira áberandi

Margir erlendir miðlar hafa fjallað um að árásir Ísraela á Palestínumenn hafi ekki verið meiri síðan árið 2014. Magnús Þorkell segir að oft hafi skapast aðstæður þarna þar sem ástandið er mjög viðkvæmt. Það sem er öðruvísi núna er að fólk er með síma, getur tekið myndir og deilt þeim á netinu. Hann líkir þessu við Black Lives Matter-hreyfinguna í Bandaríkjunum. „Núna sjáum við fleiri myndir og fleiri sjónarhorn sem við höfum ekki séð áður og það gerir frásögnina miklu merkilegri og við sjáum líka meira frá sjónarhóli Palestínumannsins og þeir sem eru þolendur þessa ofbeldis miklu meira en oft áður,“ segir Magnús Þorkell.

epa09195137 Smoke and flames rise after an Israeli strike Al-Shorouq tower in Gaza City, 12 May 2021. In response to days of violent confrontations between Israeli security forces and Palestinians in Jerusalem, various Palestinian militants factions in Gaza launched rocket attacks since 10 May that killed at least six Israelis to date. Gaza Strip's health ministry said that at least 65 Palestinians, including 13 children, were killed in the recent retaliatory Israeli airstrikes. Hamas confirmed the death of Bassem Issa, its Gaza City commander, during an airstrike.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA

„Það gerir stöðuna svolítið athyglisverðari og gerir okkur kannski betur í stakk búin til þess að meta hvernig í raun og veru ástandið er. Þetta er kannski svipað eins og fréttir um lögregluofbeldi hér í Bandaríkjunum að það var ekki þannig að allt í einu byrjaði lögreglan að beita ofbeldi með þessum hætti heldur er núna bara fólk er að taka þetta upp og þess vegna höfum við frekari heimildir um þetta heldur en oft áður þannig að þetta er bara mjög svipað og hefur verið oft áður.“

Utanríkisráðherra segir ástandið mjög slæmt

Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu fyrir tíu árum og segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, að afstaða Íslands sé skýr. „Það liggur alveg fyrir að þessi landtaka er ólögmæt eins og við höfum komið á framfæri, og við styðjum tveggja ríkja lausn sem að báðir aðilar hafa talað fyrir og það er alveg ljóst að það verður að koma á krafti inn í friðarviðræður milli Ísraela og Palestínumanna því að þetta ástand er, bara eins og við vitum, mjög slæmt svo ekki sé dýpra í árinni tekið,“ segir Guðlaugur Þór.

Telur að alþjóðasamfélagið geti gert meira

Stjórnvöld víðar hafa brugðist við með því að fordæma ofbeldið og hvetja til stillingar. En gæti alþjóðasamfélagið brugðist við af meiri mætti? Magnús Þorkell segir að það geti alþjóðasamfélagið vel gert. „Bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og það sem verið er að tala um þvinganir á Ísrael ef þeir vilja vera teknir inn í alþjóðasamfélagið sem venjulegt ríki þá eiga þeir að bregðast við og koma fram við sína nágranna eins og við gerum ráð fyrir að allir ættu að gera,“ segir Magnús Þorkell.