„Eflaust verður rætt um mig í einhverjum búningsklefum“

Mynd: Garðar Gunnlaugsson / Facebook

„Eflaust verður rætt um mig í einhverjum búningsklefum“

12.05.2021 - 14:21

Höfundar

„Ég er með breitt bak svo mér er slétt sama. Ég vil bara að þetta ástand skáni og þetta er stórt skref í þá átt,“ segir Garðar Gunnlaugsson fyrrum knattspyrnumaður sem hvetur karlmenn til að líta í eigin barm í kjölfar nýrrar #metoo-bylgju, stíga fram og þátt í baráttunni gegn eitruðum karlakúltúr og kynferðisofbeldi.

Nýjasta #metoo-bylgjan hefur nú skollið á landsmönnum og flætt yfir samfélags- og fjölmiðla síðustu daga. Bylgjurnar í þessu uppgjöri samfélagsins við rótgróið kynbundið og kynferðislegt ofbeldi hafa verið nokkrar hingað til. Árið 2015 skiptu þolendur og aðstandendur þolenda um aðalmynd á Facebook, í gula eða appelsínugula mynd með teiknuðu andliti, til að vekja athygli á hve algengur og alvarlegur vandinn væri í samfélaginu. Árið 2017 varð alþjóðleg bylgja sem rataði til Íslands þegar hópar kvenna í hinum ýmsu atvinnugreinum tóku sig saman og birtu nafnlausar frásagnir af ýmiss konar áreitni og ofbeldi sem þær höfðu verið beittar.

Nú árið 2021 er ný bylgja risin og það kveður við nýjan tón. Í þetta sinn birtir fólk, að mestu leyti konur, frásagnir af kynferðisofbeldi á Twitter og fleiri samfélagsmiðlum, sumar af alvarlegum nauðgunum og kynferðisofbeldi og stundum áreitni eða atvikum þar sem mörkin eru óljósari en viðkomandi upplifir að á sér hafi verið brotið.

Í þessari bylgju hefur umræðan ekki síst snúist um það hvernig samfélagið á það til að trúa og taka afstöðu með gerendum í slíkum málum. Krafan verður æ háværari um að karlar taki þátt með því að taka ábyrgð á sjálfum sér og hegðun sinni, og þeir skorist ekki undan samtalinu við vini og vandamenn sem gerast brotlegir. Til þátttöku í því samtali mættu í Lestina á Rás 1 þrír karlmenn úr ólíkum áttum, þeir Matthías Tryggi Haraldsson tónlistarmaður og sviðshöfundur, Garðar Bergmann Gunnlaugsson fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu og Árni Matthíasson blaðamaður.

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Marsibil Clausen - RÚV
Matthías, Árni og Garðar ræddu um ábyrgð karla í kjölfar nýrrar #metoo bylgju.

Klámkynslóðin uppgötvar hugsanaskekkju

Matthías segir að það sé mikilvægt á þessum tímum að líta í eigin barm og yfir farinn veg í nýju ljósi. „Ég á erfitt með að koma orðum að þessu, ég hef ekki tjáð mig mikið í þessari umræðu en ég held að ég hafi litið til baka og reynt að hugsa um mörk.“ Margir í kringum hann séu augljóslega í sömu hugleiðingum og vilji líta í baksýnisspegilinn og sjá skýra mynd.

Kynslóð Matthíasar er gjarnan köllum klámkynslóðin og hann segir að eflaust séu ungir menn á hans reki að uppgötva ákveðna hugsanaskekkju sem þeir hafi alist upp við varðandi mörk. Því sé heilbrigt að velta því fyrir sér hvort maður kunni að hafa farið yfir mörk elskhuga, og vera tilbúinn að bregðast við ef svo sé.

Uppgötvi maður að hafa sjálfur farið yfir mörk hjá öðrum, eða að vinur manns sé á meðal hinna fjölmörgu gerenda, þá sé spurning hvaða skref skuli taka í kjölfarið. Þeirri spurningu sé brýnt að svara. „Ég væri mjög til í einhverja kennslu í því að ræða það við vini og vita hvernig það samtal lítur út.“

Ekki mæta með syndaaflausn og biðja um kvittun

Í Kastljósi í gær var meðal annars talað um afsökunarbeiðni og hvernig ætti að fara að henni vilji maður sýna þolanda sínum iðrun. „Mér fannst gott að heyra þetta í gær með að biðja um leyfi til að biðjast afsökunar. Ekki mæta með einhverja syndaaflausn og biðja um kvittun heldur að samtalið sé á forsendum þolandans.“

Matthías hafði ekki áður tjáð sig um þessi mál þegar hann mætti í Lestina og hann segir að umræðan sé óþroskuð og hann óþroskaður sem þáttttakandi í henni, sem upplifi skort á verkfærum til að tjá sig um málin. „Ég hef bara verið hlustandi og er að reyna að læra og átta mig á því hvað ótrúlega margar konur í kringum mig hafa verið að ganga í gegnum. Ég upplifi ákveðinn vanmátt í að ræða þetta.“

Konur æðri að flestu leyti

Garðar er á meðal fjölmargra karla sem lagt hafa orð í belg í þessari nýjustu bylgju sem lýst hafa yfir vilja til að standa með þolendum. Það gerði hann meðal annars á Twitter.

Garðar segist hafa lifað og hrærst í afar karllægum heimi íþróttanna þar sem umræðan í klefanum hallaði oft á konur og minnihlutahópa. Þar þurfi að gera miklu betur. „Ekki það að konur séu minnihlutahópur, þær eru æðri en við að mörgu leyti, ef ekki flestu.“

Karlmenn þurfa að axla ábyrgð og taka þátt

Þegar slíkar klefaumræður fari fram sé þeim gjarnan stýrt af tveimur eða þremur en aðrir standi sig að því að vera meðvirkir viðhlæjendur og taki þátt í eitruðum kúltúr. Að því leyti kveðst Garðar sjálfur ekki saklaus en í umræðum síðustu daga hafi augu hans opnast.

„Það hefur verið átakanlegt að lesa Twitter síðustu vikur og mig langar að fá fólk sem er með stóran fylgjendahóp, fólk sem á sér aðdáendur og eru fyrirmyndir annarra, að þau stígi fram. Sérstaklega karlar.“ Hann kallar eftir því að íþróttamenn og aðrir núverandi og fyrrverandi fótboltamenn leggi lóð sín á vogarskálarnar til að uppræta það sem Garðar kallar ástandið. „Þetta er ástand sem hefur varað lengi. Og þetta er kynslóðaástand eins og kom fram í Kastljósi í gær.“

Er með breitt bak og slétt sama um illt umtal

Garðar telur líklegast að jafnvel þeir sem enn hafa ekki látið í sér heyra séu margir að pæla í þessum málum en upplifi ákveðna hræðslu við að stíga fram og segja sína skoðun, ekki síst í íþróttaheimi karla. „Það verður eflaust rætt um mig í einhverjum klefum um landið en ég er með breitt bak svo mér er slétt sama. Ég vil bara að þetta ástand skáni og þetta er stórt skref í þá átt.“

Verkfærin eru til

Hann tekur undir með Matthíasi og segir að verkfærin til þess að taka þátt blasi ekki alltaf við, en það sé ljóst að þau séu til. „Ég hef séð í ýmsum umræðum að þau eru til, þessi verkfæri, það er hægt að fara á námskeið hjá ýmsum samtökum til að læra að tala um þessi mál og takast á við þessi mál fyrir karlmenn. Hvort sem þú ert gerandi eða viljir bara tala við gerendur,“ segir Garðar. „Þetta er eitthvað sem við karlmenn mættum skoða.“

Að taka afstöðu með geranda er að taka afstöðu á móti þolanda

Árni segir að karlar þurfi að læra að hlusta, það hafi þeir ekki gert í gegnum árin, áratugina og aldirnar. „Við höfum ekki hlustað á það þegar konur hafa verið að segja frá þessu.“ Hann segir að alltaf þegar fólk taki þá ákvörðun að trúa gerendanum þá sé ákvörðunin sömuleiðis tekin um að trúa ekki fórnarlambinu. „Það gleymist svolítið í þessu samhengi.“

Glíman við ranghugmyndir og vanþekkingu

Karlar þurfi að líta í eigin barm, hlusta og læra, ekki bara í íþróttahreyfingunni, í sviðslistum, blaðamennsku og tæknigeira heldur í samfélaginu öllu. „Við erum alin upp í samfélagi sem er karllægt. Elsta valdakerfi mannkynssögunnar er vald karla yfir konum og staða karla gagnvart konum.“ Menn hafi í gegnum árin verið aldir upp við ranghugmyndir sem samfélagið hafi kennt þeim. „Það eru vinirnir, alls konar fólk sem kemur þessu í hausinn á okkur og við erum alla ævi að berjast við það. Við erum alla ævi að glíma við þessar ranghugmyndir og vanþekkingu. Fyrsta skrefið er að fatta að maður sé á þessum stað.“

Garðar tekur í sama streng og segir mikilvægt að þora að taka slaginn við þá sem tala á þennan hátt. „Ef ég lít í minn eigin barm hef ég aldrei þorað að taka þann slag og það er eitthvað sem ég skammast mín fyrir núna.“

Frábært að sjá hvað yngri kynslóðir eru komnar langt

Miðaldra hvítir karlar eru versti hópurinn, að mati Árna. Hann tekur fram að hann tilheyri sjálfur þeim hópi. „Allavega sé ég mestu vanþekkinguna í þeim hópi, enda fengu þeir kannski versta uppeldið hvað þetta varðar,“ segir hann og lítur á mennina sem sitja viðtalið með honum. „Þegar ég sit hér hjá ykkur tveimur finnst mér það frábært að menn séu komnir þetta langt. Þegar ég var ungur maður var viðhorfið að karlar væru bara betri en konur að öllu leyti og konur voru undirokaðar og áttu bara að vera heima og í eldhúsinu.“

Að hætta að kóa með karlrembu

Matthías víkur umræðunni aftur að viðhlæjendum í karlaklefanum og þeirri menningu sem víða skapast. Hann kallar það karlrembumeðvirkni.

„Maður lítur ekki endilega á sig sem karlrembu en maður er að kóa með karlrembu. Ég held það kannist allir við það,“ segir hann. Sjálfur kveðst hann vilja vera betri í því að láta í ljós skoðanir sínar í slíkum aðstæðum, að manni þyki vanvirðingin sem konum sé sýnd ekki í lagi og ekki fyndin, án þess að gerandinn eða karlremban fari í vörn. „Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að æfa okkur í.“

„Ég trúi alltaf þolendum“

Hingað til hafa margir veigrað sér við því að taka afstöðu í kynferðisafbrotamálum á þeim forsendum að þeir þekki ekki nóg til málsatvika og hafi ekki heyrt báðar hliðar. Þá vilji fólk lýsa sig hlutlaust. Árni segir að það sé vissulega snúið en í mörg ár hefur hann alltaf tekið skýra afstöðu.

„Ég trúi alltaf þolendum. Hingað til höfum við alltaf trúað gerendum og það hefur ekki skilað okkur betra samfélagi. Hvað með að trúa alltaf þolendum?“ Árni er ómyrkur í máli. Rannsóknir sýni að í innan við tveimur prósentum tilvika sé logið í slíkum málum og því yfirgnæfandi líkur á að þolandi segi satt. „Hvað er málið hérna? Auðvitað trúir maður bara þolendum og mér finnst það algjörlega augljóst. Ég er ekki hlutlaus og verð ekki hlutlaus í svona máli.“

Garðar segir að ef strákar fari í naflaskoðin blasi við að það eru konurnar í kringum þá hafi margar orðið fyrir kynferðisofbeldi og í mörgum tilfellum alvarlegu. Árni tekur undir: „Eins og sagt er, það eru ekki allir karlar en það eru næstum allar konur.“

Kristján Guðjónsson stýrði umræðum í Lestinni. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Ræddu #metoo á þingi: „Skömmin gerenda og réttarkerfis“

Innlent

Umræðan ýfir upp gömul sár og fleiri leita hjálpar

Innlent

Býst við að ný bylgja verði kröftugri en sú síðasta