Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ákvörðun Kolbeins kom Bjarkeyju á óvart

12.05.2021 - 08:33
Mynd: RÚV / RÚV
Ákvörðun Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns Vinstri grænna um að draga framboð sitt til baka, var hans ákvörðun og fer í ferli innan þingflokks Vinstri grænna, segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG.

„Góð ákvörðun“

Kolbeinn greindi frá því í gærkvöld að hann hafi komið illa fram við konur og að kvartað hafi verið undan hegðun hans til fagráðs Vinstri grænna. Hann segir að það ferli sem þá fór af stað hafi opnað augu hans fyrir því að ýmsu sé ábótavant í hans hegðun. Bjarkey segir að sér hafi komið ákvörðun Kolbeins á óvart. „Jájá, það gerði það nú, ég ætla nú samt að segja, þetta er bara góð ákvörðun, þetta er hans ákvörðun og málið fer í ferli hjá hreyfingunni eins og vera ber og við bara sjáum svo til hvernig það verður allt saman, þannig að það er lítið um það að segja annað en að það er bara gott að sjá að fólk kannast við og tekur á málunum,“ sagði Bjarkey á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Kolbeinn sóttist eftir því að leiða lista flokksins í Suðurkjördæmi en lenti í fjórða sæti. Ákvað hann að þiggja ekki sætið og tilkynnti að hann hygðist bjóða sig fram í Reykjavík. 

Komnir farvegir innan flokkanna

Svipað mál hefur komið upp innan Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður, hyggst vegna þess ekki bjóða sig fram til þingsetu í haust. Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var einnig gestur Morgunvaktarinnar en þau Bjarkey sitja bæði í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins. Guðmundur segir kvartanir vegna áreitni eða óviðeigandi framkomu nú fara í sérstakan farveg innan flokkanna. „Ég held þetta hafi tekist vel hjá okkur, við höfum nefnd sem tekur við málum af þessu tagi þegar þau koma upp og fellir einhvers konar úrskurði sem eru þá bindandi á einhvern hátt, við erum ekki að tala um lagalega bindandi en fólk hefur unað þeim. Það er bara mjög mikilvægt að flokkarnir hafi farveg af þessu tagi og ég held að flestir flokkar hafi fylgt því í seinni tíð.“

Að koma upp slíkum farvegum hafi verið ákveðin afurð fyrri #metoo-bylgjunnar sem reis árið 2017. 

Hlusta má á allt viðtalið við þau Bjarkeyju og Guðmund í spilaranum hér fyrir ofan.  
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV