Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vill 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kraganum

11.05.2021 - 22:21
Mynd með færslu
 Mynd: Karen Elísabet Halldórsdóttir
Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, sækist eftir þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Hún er skrifstofustjóri Raftækjasölunnar ehf., situr í stjórn Strætó og er í ráðgjafanefnd jöfnunarsjóðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún hefur lært sálfræði og mannauðsstjórnun.

Í tilkynningu sem Karen Elísabet sendi frá sér í kvöld segist hún leggja höfuðáherslu á „að við náum að vinna á því atvinnuleysi sem COVID-19 hefur skapað okkur“. Til þess að svo sé hægt þurfi að huga að rekstrarumhverfi fyrirtækja og sér í lagi lítilla og meðalstórra eininga. Hún vill létta á biðlistum í heilbrigðiskerfinu og fjölga aðgerðum. Þá segist hún vilja gera „hælisleitendaferlið skilvirkara“ og huga að aðlögun innflytjenda.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Kraganum fer fram dagana 10. til 12. júní.

 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV