Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Rússnesk glæpaklíka játar netárás á olíuleiðslu

epa09189746 A Colonial Pipeline facility in Baltimore, Maryland, USA, 10 May 2021. A cyberattack forced the shutdown of 5,500 miles of Colonial Pipeline's sprawling interstate system, which carries gasoline and jet fuel from Texas to New York. The FBI confirmed that Darkside ransomware is responsible for the attack that compromised the Atlanta-based pipeline company.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tölvuglæpahópurinn DarkSide er ábyrgur fyrir árásinni á stærstu eldsneytisleiðslu Bandaríkjanna. Bandaríska alríkislögreglan FBI staðfesti þetta í gær. Hópurinn greindi sjálfur frá þessu á hulduvefnum svokallaða, og segist aðeins vilja græða pening á þessu.

DarkSide á rætur að rekja til Rússlands, en hópurinn þvertekur fyrir að vinna fyrir nokkur stjórnvöld.  Bandarískur netglæpasérfræðingur tjáði fréttastofu CNN að alla jafna herji DarkSide á ríki þar sem rússneska er ekki töluð. Hópurinn varð til í ágúst í fyrra og er því tiltölulega nýr.

Netvarnarsérfræðingurinn Allan Liska segir hópinn hins vegar hafa vaxið hratt, og hann sé fremur árásargjarn. Hann er meðal hópa sem bjóða öðrum glæpahópum þjónustu sína, og gera gagnagíslaárásir fyrir þá gegn gjaldi.
FBI segir ekkert benda til beinna tengsla á milli DarkSide og rússneskra stjórnvalda. Rannsóknin beinist þó að því að einhverjir hafi fengið glæpahópinn til verksins. Stjórnvöld í Moskvu þvertaka fyrir að eiga nokkurn þátt í málinu.

Eldsneytisleiðslur Colonial flytja að jafnaði um tvær og hálfa milljón tunna af ýmis konar eldsneyti frá ströndum Texas að austurströnd Bandaríkjanna. Leiðslurnar eru samanlagt um níu þúsund kílómetra langar.