Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ræddu #metoo á þingi: „Skömmin gerenda og réttarkerfis“

11.05.2021 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV Samsett
Ný #metoo-bylgja var rædd á Alþingi í dag. Þrjár þingkonur ítrekuðu stuðning sinn við þolendur, auk þess sem þær gagnrýndu það hvernig réttarkerfið hefur tekið á kynferðisafbrotamálum.

Fjölmargir þolendur hafa stigið fram á samfélagsmiðlum síðustu daga og opnað sig um kynferðisofbeldi, afleiðingar þess og viðbrögð samfélagsins. Þessi nýja #metoo-bylgja var gerð að umtalsefni á Alþingi í dag.

„Það er hryllilegt að vita til þess að okkar annars góða samfélag sé með þann ljóta blett sem kynferðislegt ofbeldi og áreitni er. Við þurfum að hlusta á þessar sögur. Við þurfum að læra og við þurfum einfaldlega að gera betur,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, setti spurningamerki við það hvernig dómstólar taka á þessum málum.

„Við erum í annarri bylgju #metoo. Á sama tíma fáum við upplýsingar um að Landsréttur mildi dóma í 40% kynferðisbrotamála sem fara fyrir dóminn, 40%. Til samanburðar eru 25% dóma í ofbeldis- og fíkniefnabrotum mildaðir. Skyldi engan undra að þolendur séu tregir til að leita réttar síns ef þetta eru kveðjurnar frá dómstólum landsins. Ég stend með ykkur,“ sagði Bjarkey.

og Olga Margrét Cilia, þingkona Pírata, tók í sama streng.

„Skömmin er ekki þolenda. Skömmin er gerenda og réttarkerfis sem hefur gjörsamlega brugðist þolendum kynferðisofbeldis og neita að taka ábyrgð á þeim varanlegum skaða sem það hefur valdið á kynslóðum kvenna og kynsegin sem treysta ekki kerfinu til að ná fram réttlæti,“ sagði Olga Margrét Cilia, þingkona Pírata,