Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Portúgalskir landamæraverðir dæmdir fyrir manndráp

11.05.2021 - 03:04
Mynd með færslu
 Mynd: Luis Ascenso - Flickr
Þrír portúgalskir landamæraverðir voru í gær dæmdir í sjö til níu ára fangelsi fyrir að hafa orðið manni að bana í fyrra. Verðirnir misþyrmdu Úkraínumanninum Ihor Homenyuk í varðhaldi.

Homenyuk var fertugur þegar hann kom til Lissabon í mars í fyrra í leit að vinnu. Hann var ekki með tilskilda vegabréfsáritun og var hnepptur í varðhald þegar hann neitaði að fara heim með næsta flugi. Þar gengu verðirnir þrír í skrokk á hönum með spörkum og barsmíðum með kylfum. Hann var skilinn eftir á gólfi fangaklefans. Hann lá á maganum, marg-rifbrotinn, handjárnaður með hendur fyrir aftan bak og fætur bundna saman. Samkvæmt réttarmeinalækni kafnaði Homenyuk einn í klefanum.

Ákærur fyrir morð voru á sínum tíma felldar niður, þar sem ekki tókst að sanna að verðirnir hafi ætlað að drepa hann. Dómarinn í málinu sagði hins vegar ljóst að þremenningarnir hafi viljað meiða Homenyuk og valda honum miklum kvölum. Dauði hans sé bein afleiðing gjörða sakborninganna, þegar þeim bar skylda til að hegða sér allt öðruvísi, hefur fréttastofa BBC eftir dómaranum.

Málið vakti mikla reiði í Portúgal á sínum tíma. Antonio Costa, forsætisráðherra Portúgals, sagði árásina ófyrirgefanlega. Stjórnövld greiddu ekkju og tveimur börnum Homenyuks jafnvirði rúmlega hundrað milljóna króna í skaðabætur. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV