Nýtt myndskeið frá fyrsta æfingadegi Daða

Mynd: EBU / ANDRES PUTTING / EBU / ANDRES PUTTING

Nýtt myndskeið frá fyrsta æfingadegi Daða

11.05.2021 - 13:18

Höfundar

Íslenski hópurinn fylgdi Gagnamagninu á fyrstu æfingunni í gær og meðfylgjandi myndskeið sýnir það sem fram fór baksviðs fyrir og eftir æfingu, og á meðan á henni stóð. Æ fleiri spá Daða sigri eftir æfinguna þar sem margir voru sammála um að allt hefði smollið saman.

Eftir hádegi í gær fór fyrsta æfing Daða og Gagnamagnsins fram í Ahoy-höllinni í Rotterdam. Mikil leynd hvílir yfir æfingunum en glefsur frá henni voru birtar á Youtube í gær og hefur þeim verið streymt tæplega tvö hundruð þúsund sinnum.

Gífurleg eftirvænting ríkir í kringum æfingarnar í aðdraganda keppninnar því ár hvert fara veðbankar á fleygiferð um leið og vísbendingar berast um sviðsetningu atriðanna og hvernig þau njóta sín á sviðinu.

Sagan segir okkur jú að það skiptir ekki öllu máli að vera með besta lagið, heildarpakkinn þarf að virka, sviðsetning, dans, framkoma og auðvitað söngur. Það er ljóst að sérfræðingarnir hafa tröllatrú á Daða eftir æfinguna því veðbankar færðu Daða og Gagnamagnið upp í fjórða til fimmta sæti sem hann vermir ásamt ítalska laginu sem spáð hefur verið mikilli velgengni.

Tístarar hið ytra hafa margir lýst yfir velþóknun á Daða og frammistöðu hans eftir æfinguna og einhverjir þykjast geta fullyrt að sigurinn verði loksins íslenskur í ár.

„Munið þið eftir fyrsta íslenska sigrinum sem allir áttu von á í fyrra? Já, hann er sko enn á dagskrá,“ segir þessi til dæmis og fjölmargir taka undir.

Á æfingunni var hulunni einnig svipt af nýrri útfærslu á hljóðfærum hópsins sem Árný Fjóla í Gagnamagninu, eiginkona Daða, sá um að hanna og smíða.

Hópurinn hefur nú klæðst peysunum með hinum dularfulla QR-kóða í viðtölum í Rotterdam og það hefur augljóslega vakið forvitni hjá þeim sem fylgjast með. Þegar hann er skannaður opnast Gagnamagns-leikurinn sem í kjölfarið hefur orðið svo vinsæll að hann er næst vinsælasta appið í App store hjá Apple um þessar mundir.

Tengdar fréttir

Popptónlist

10 years er lag vikunnar á BBC

Popptónlist

Daði klífur upp veðbankann eftir fyrstu æfingu