Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Níu skotin til bana í skóla í Rússlandi

11.05.2021 - 12:45
epa09191205 A person on a stretcher is loaded onto an ambulance outside a school in the aftermath of a shooting, in Kazan, Russia, 11  May 2011. At least 08 people, including one teacher, were killed and several were wounded when gunmen opened fire at the school.  EPA-EFE/Anton Raykhshtat
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Níu hið minnsta, sjö unglingar og kennari þeirra, létust í skotárás í borginni Kazan í Rússlandi í morgun. Tuttugu særðust. Einn hefur verið handtekinn vegna árásarinnar og er hann fyrrum nemandi við skólann og átti byssu. Forseti Rússlands vill herða reglur um byssueign hið snarasta.

Nemendur og kennarar heyrðu sprengingu áður en skotárásin hófst. Ekki er staðfest hve margir létust en vitað er að sjö nemendur, einn kennari og einn starfsmaður skólans eru látin. Ríkisfréttastofan RIA Novosti greinir frá því að tveir nemendur hafi látist er þeir stukku út úr skólanum af þriðju hæð. Að minnsta kosti tuttugu manns særðust. Þar af eru sex í lífshættu. Myndskeiðum var dreift á samfélagsmiðlum í Rússlandi þar sem sjá mátti fólk stökkva út um glugga til að forða sér af vettvangi. 

Nítján ára gamall maður, sem útskrifaðist úr skólanum fyrir fjórum árum, hefur verið handtekinn, grunaður um ódæðisverkin. Hann er skráður byssueigandi. Rússneskir fjölmiðlar greina frá því að hann hafi lýst því yfir á samfélagsmiðlinum Telegram að hann hafi ætlað að skjóta fjölda manns og svipta sig svo lífi. Skotárásir sem þessar eru afar sjaldgæfar í Rússlandi. 

Vladimír Pútín, forseti landsins, fyrirskipaði í morgun að löggjöf um byssueign í landinu yrði endurskoðuð hið fyrsta í ljósi árásarinnar. 

Borgin Kazan, þar sem árásin var gerð, er í átta hundruð kílómetra fjarlægð frá Moskvu, í sjálfstjórnarlýðveldinu Tatarstan. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir