Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Létu eldflaugum rigna yfir til Ísraels

epa09190680 An Israeli property damage tax inspector works at an apartment that was damaged by a rocket fired from the Gaza Strip, in the city of Ashkelon, Israel, 11 May 2021. Israel Defense Forces (IDF) said they hit over 100 Hamas targets in the Gaza Strip during a retaliatory overnight strike after rockets were fired at Israel by Palestinian militants.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
Nokkur hús skemmdust í Ashkelon í eldflaugaárás Palestínumanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Tveir almennir borgarar létust og sá þriðji er alvarlega særður eftir eldflaugaárás frá Gazasvæðinu á borgina Ashkelon í Ísrael í dag. Forsætisráðherra Ísraels segir að hernaðaraðgerðir gegn Palestínumönnum á Gaza verði hertar.

Yfir 250 eldflaugum var skotið í dag frá Gaza á borgirnar Ashkelon og Ashdod. Tvær konur á sjötugs- og níræðisaldri létust þegar flaugar höfnuðu á heimilum þeirra. Yfir áttatíu til viðbótar særðust, þar af einn alvarlega.

Benjamín Netanyahu forsætisráðherra lýsti því yfir þegar hann heimsótti höfuðstöðvar Ísraelshers í suðurhluta landsins í dag að hernaðaraðgerðir gegn Hamas-samtökunum og Islamic Jihad, samtökum herskárra íslamista, yrðu hertar. Síðdegis skýrðu yfirvöld á Gaza frá því að árásir hefðu verið gerðar á að minnsta kosti fjórtán mannvirki Hamas-samtakanna á svæðinu norðanverðu. Að þeirra sögn hafa 28 Palestínumenn fallið síðustu tvo daga, þar af níu börn. Yfir 150 hafa særst.

Ayman Safadi, utanríkisráðherra Jórdaníu, sagði í dag að Ísraelsmenn lékju sér að eldinum með aðgerðum sínum gegn Palestínumönnum. Þær ættu eftir að hafa áhrif á samskipti þjóðanna í framtíðinni. Tyrkir hafa ráðfært sig við stjórnvöld í Malasíu, Jórdaníu, Kúveit og Katar um leiðir til að bera klæði á vopnin.