Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kvikan þeytist hátt í 300 metra upp í loft

11.05.2021 - 10:36
Mynd: RÚV / RÚV
Eldstrókarnir sem standa upp úr gígnum í Geldingadölum ná hátt í 300 metra hæð þegar krafturinn er sem mestur. Gígurinn sem hefur hlaðist upp er nú um það bil 50 metra hár.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir hraunflæði úr gígnum í Geldingadölum enn vera á bilinu 5-10 rúmmetrar á sekúndu, og jafnvel nær tíu rúmmetrum. Von er á uppfærðum niðurstöðum mælinga á hraunflæði og gosefnum í dag.

Um klukkan 13 í gær, mánudag stóðu strókarnir úr gígnum einstaklega hátt. Þeir sáust víða að. Til dæmis sáust þeir vel út um gluggann á Fréttastofu Ríkisútvarpsins í Efstaleiti í Reykjavík. Það gýs enn í föstum takti. Svo virðist sem gosið hætti í fáeinar mínútur áður en það fer að bulla í katlinum á ný og kvikan þeytist hundruð metra upp í loftið. Það er tilkomumikil sjón, jafnvel í margra kílómetra fjarlægð.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV