Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hættustig ekki verið sett á áður vegna gróðurelda

11.05.2021 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Í fyrsta sinn er hættustig í gildi vegna gróðurelda. Almannavarnir hafa, í samráði við slökkviliðsstjóra á Vestfjörðum, Vesturlandi, Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi, ákveðið að hækka viðbúnaðarstigið og banna allan opinn eld.

„Niðurstaðan er að hækka almannavarnastigið yfir á hættustig og það er gert í ljósi stöðunnar. Það hafa verið miklir þurrkar undanfarið. Þetta er venjulega sá mánuður þar sem rignir minnst. Núna er samt óvenjulega lítil rigning þrátt fyrir það. Það er fátt annað í stöðunni en að hækka almannavarnastigið,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. 

„Það er líka stórt svæði sem er undir líka, óvenju stórt, það hefur ekki verið svo stórt áður,“ bætir hann við. 

Svæðið nær frá Breiðafirði að Eyjafjöllum. Þetta er í fyrsta sinn sem hættustig er í gildi hér á landi vegna hættu á gróðureldum. Hættustig almannavarna er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo að um neyðarástand sé að ræða. Lítið hefur rignt undanfarnar vikur og lítil úrkoma er í langtímaspám.

„Allir slökkviliðsstjórar á þessu svæði hafa ákveðið  að nýta sér reglugerð um meðferð elds og ákvæði í reglugerð og hafa ákveðið að banna allan opinn eld á þessu svæði,“ segir Rögnvaldur. 

Hann hvetur fólk sérstaklega til að fara varlega í sumarbústaðalöndum, með allt sem gæti flokkast undir opinn eld, verkfæri og þess háttar. 

 „Og líka eins og með kamínur og eldstæði og arin og þess háttar. Að geyma að nota það, því það getur farið neisti upp úr þessu. Við viljum ekki taka þennan séns.“

Þá er fólk hvatt til að kynna sér flóttaleiðir við sumarhús og bleyta í gróðri í kringum hús þar sem þurrt er. 

Slökkviliðin fara nú reglulega í eftirlitsferðir og hafa sums staðar fært slökkvitæki og önnur tól þangað sem hætta er á gróðureldum til að það sé styttra í þau ef eldar blossa upp. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu kviknuðu 20 eldar á fyrstu tíu dögum þessa mánaðar. Sem fyrr hvetur Rögnvaldur fólk til að passa sig.

„Meðferð opins elds er bönnuð, það er bara svo einfalt. Þar sem fólk hefur verið að fara inn í gróðurlendi og grilla og hafa gaman og þess háttar. Það verður þá að sleppa öllum eld í því samhengi, bara mæta með samlokur og kex.“

 

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV