Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hætta vegna þurrka: „Setjum meiri styrk í viðbragðið“

Mynd: RÚV / RÚV
Það var heilmikið eldhaf skammt frá Hvaleyrarvatni á þriðja tímanum í dag þegar slökkviliðið bar þar að. Þetta segir Guðmundur Karl Halldórsson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Vel gekk að slökkva gróðureldinn: „Það gerði gæfumuninn hvað var lítill vindur. Það hafði allt að segja,“ segir hann. 

Störf Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðisins snúast að miklu leyti um gróðurelda þessa dagana og nú er í fyrsta sinn í gildi hættustig vegna gróðurelda á sunnan- og vestanverðu landinu. Gróðureldar kviknuðu fjórum sinnum á sunnan- og vestanverðu landinu í dag, í Grímsnesi, á Vatnsleysuströnd, við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði og á Laugarnestanga.

„Við erum í þessu á hverjum degi og ástandið er ekki gott. Það þarf svo lítið til þess að það verði mikill eldur og þetta er fljótt að gerast. Ef við erum ekki snögg á staðinn getur þetta orðið mjög erfitt við að eiga,“ segir Guðmundur.

Hættustigið breytir engu um viðbúnað slökkviliðsins almennt. „Hann er sá sami, við höfum ekki verið að fjölga mönnum á vakt. En við setjum meiri styrk í viðbragðið, um leið og við fáum tilkynningu sendum við miklu sterkari mannafla af stað,“ segir Guðmundur.