Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fastur á miðri glerbrú þegar gólfið splundraðist

11.05.2021 - 06:28
Erlent · Asía · Kína
Mynd með færslu
 Mynd: Weibo
Kínverskur maður komst lífs af með því að ríghalda sér í brúarhandrið þegar glergólf brúarinnar splundraðist í hvassviðri í norðaustanverðu Kína um helgina. Brúin er um hundrað metrum yfir gili í fjallinu Piyan við borgina Longjing.

Skyndilega gerði mikið hvassviðri, með hviðum yfir fjörutíu metrum á sekúndu, sem lagði glerbotn brúarinnar í rúst. Maðurinn var því fastur á miðri brúnni þar til hópur björgunarfólks úr röðum slökkviliðs, lögreglu, skógarvarða og ferðaþjónustufyrirtækja komu honum til bjargar. Björgunaraðgerðin tók um hálftíma.

Myndum af aðgerðinni var dreift um kínverska samfélagsmiðilinn Weibo. Þar sést hvar maðurinn rígheldur sér í handriðið, og brúargólfið holt í kringum hann. Maðurinn komst ómeiddur frá ósköpunum, en var sendur á sjúkrahús til aðhlynningar og áfallahjálpar, að sögn Guardian.

Málið vakti umræðu meðal fólks á samfélagsmiðlum. Fjölmargar sams konar brýr hafa verið reistar í Kína á undanförnum árum, og velta margir því fyrir sér hvort, og þá hvernig, hægt sé að tryggja öryggi þeirra. Frægasta brúin af þessu tagi er að öllum líkindum 430 metra löng brú í Zhanjiajie þjóðgarðinum í Hunan héraði. Hæst er hún 300 metrum yfir jörðu. 

Samkvæmt kínverskum fjölmiðlum ætla yfirvöld í héruðum landsins að herða reglugerðir varðandi byggingu glerbrúa. Þar á meðal verður mælt gegn því að reisa slíkar brýr á jarðskjálftasvæðum. Almenningsgarðurinn við Piyan-fjall verður lokaður á meðan brúarrústin er rannsökuð.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV