Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Blóðugur dagur fyrir botni Miðjarðarhafs

11.05.2021 - 20:21
Mynd: EPA-EFE / EPA
Ísraelsher heldur áfram loftárásum á Gaza og vopnaðar fylkingar senda flugskeyti þaðan að ísraelskum borgum. Loftárásir Ísraelshers á Gaza hafa banað minnst 28 Palestínumönnum, þar af tíu börnum. Tvær ísraelskar konur féllu í flugskeytaárás á borgina Ashkelon og í kvöld lést önnur ísraelsk kona nærri Tel Aviv.

Meira mannfall er viðbúið. Benny Gantz varnarmálaráðherra segir að loftárásir Ísraelshers síðasta sólarhringinn séu aðeins byrjunin. Gantz lét þessi ummæli falla eftir að Hamas liðar skutu flugskeytum að Tel Aviv en áður hafði Ísraelsher skotið á 12 hæða byggingu á Gaza sem hrundi. Mikil skelfing greip um sig þegar drónaárás Ísraelshers hæfði íbúðarhúsnæði í miðri Gaza-borg um hádegisbil í dag. Tugir hafa farist í loftárásum síðasta sólarhringinn og fleiri en 120 eru særð, þar af fjölmörg börn. „Við heyrðum háværa sprengingu. Ég vissi að sonur minn var úti. Ég sá píslarvotta og brennd lík. Ég fann son minn og eiginmann á jörðinni, þakta blóði,“ segir Alaa Al- Zaharna móðir drengs sem særðist illa. 

Ísrael hefur öflugt loftvarnarkerfi sem gengur undir nafninu járnhvelfingin. Því tókst ekki að stöðva allar flugskeytaárásir frá Gaza, tvær ísraelskar konur létust í borginni Askhelon og tugir eru særðir. Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 2008 haldið skrá um hversu mörg hafa særst og látist. Samkvæmt þeim hafa 5.599 Palestínumenn látist og fleiri 115.000 særst. 251 Ísraelsmaður hefur látið lífið og tæplega 5.700 særst. Þessar tölur ná fram til 7. maí 2021.

Hjálparsamtök fái ekki óheftan aðgang að særðum

Mótmæli til stuðnings palestínskum fjölskyldum sem til stendur að bera út af heimilum sínum í hverfinu Sheikh Jarrah í Jerúsalem eru kveikjan að átökunum nú. Ísraelska lögreglan hefur beitt mótmælendur hörku og nærri þúsund Palestínumenn hafa særst. Hjálparsamtök lýsa að þau fái ekki óheftan aðgang til að hlúa að særðum.

Rauði krossinn á Íslandi fordæmir þetta og bendir á að slíkt sé brot á Genfarsáttálanum. „Það hafa borist fréttir af því að það sé ekki staðan úti núna. Bráðaliðum palestínska rauða hálfmánans sé meinað aðgengi að særðum. Og hafi í einhverjum tilfellum jafnvel orðið fyrir árásum og skemmdir unnar á sjúkrabílum. Sé það rétt, þá teljum við það klárt brot á Genfarsamningnum. Eitthvað sem að við erum tilbúin að fordæma og teljum að þurfi að gera,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi. 

Í kvöldfréttum sjónvarps var ranglega sagt að fjórir þingmenn í utanríkismálanefnd hefðu sent frá sér yfirlýsingu í dag og lýst áhyggjum af áætlun Ísraelsstjórnar um innlimun á svæðum Palestínumanna. Hið rétta er að yfirlýsingin var send í fyrra og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á henni á Facebook-síðu sinni í dag. „Ég sakna þess mjög að sjá ekki afdráttarlausari og skýrari skilaboð um afstöðu ríkisstjórnar Íslands um að fordæma hernaðaraðgerðir Ísraelshers gagnvart saklausum borgurum Palestínu,“ skrifar Rósa Björk í dag. 

Sýndu samstöðu á Austurvelli

Í dag var svo boðað til samstöðufundar með Palestínu á Austurvelli. Á meðal þeirra sem mættu þangað voru systurnar Nazima Kristín Tamimi og Nadía Tamimi. „Við viljum að Ísland slíti viðskiptum við Ísrael fyirr fullt og allt,“ segir Nazima. „Heimurinn horfir á á meðan það er verið að slátra Palestínumönnum og mér finnst ekkert vera gert. Það minnsta sem við getum gert er að mæta hér í dag. Ég vildi að við gætum gert meira. En nú þurfa stjórnvöld að taka við og gera eitthvað,“ segir Nadía.