Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Alltaf stór skaði þegar land brennur“

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Það er alltaf slæmt að fá gróðurbruna, enda heilt vistkerfi undir, segir spendýravistfræðingur. Mýs og smádýr verða helst fyrir barðinu á gróðureldum en í Heiðmörk er lúpínan byrjuð að taka við sér.

Hann er lífseigur, gróðurinn í Heiðmörk. Nú er vika frá stóra brunanum og nokkur strá brjóta sér leið í gegnum öskuna. „Það eru grænir sprotar hjá Lúpínunni, þetta er væntanlega að taka við sér aftur,“ segir Járngerður Grétarsdóttir, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.

„Þetta eru rosalega miklar skemmdir og eyðing. En það er misjafnt hvernig gróðurlendi ná að jafna sig eftir svona. En það verður allt öðruvísi umhorfs hérna næsta sumar.“

Um sextíu hektarar urðu eldi að bráð, þar af 46 með ræktuðum skógi og rúmlega fimm með náttúrulegu birki. „Þetta er stærsti bruni sem ég veit um í ræktuðum skógi. Þetta er rosalega mikið vinnutap,“ segir Járngerður jafnframt.

Járngerður telur að birkið muni einna helst ná sér, það hefur reynslan úr Norðurárdal sýnt en þar brann birkiskógur í fyrravor. Teinungar eru farnir að spretta út frá rótunum þar.  „Vonandi nær það að vaxa út frá teinungi eða lifna út frá greinunum en í mörgum tilvikum er stofninn og allur þessi vöxtur farinn sko.“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Járngerður Grétarsdóttir, gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.

Fuglar forða sér en pöddulíf deyr

Járngerður segir að furan hafi fölnað frá því í síðustu viku. Náttúrufræðistofnun telur að bruninn hafi mikil áhrif á smádýralíf. Fuglar geta forðað sér en missa varpland í upphafi varptíma. „Það heyrist svolítill fuglasöngur núna, þeir geta forðað sér undan eldinum og geta svo hafið varp á ný. Þetta snýst kannski meira um fæðuskilyrði líka. Ef pöddulífið eyðileggst er minna að éta,“ segir Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur.

Af spendýrum hefur bruninn mest áhrif á mýs. „Þetta er vondur tími fyrir hagamýs sem eru nýgotnar. Afföllin verða mjög mikil. Þannig það eru fáar eftir,“ segir Ester Rut jafnframt.

Ester útilokar samt ekki landnám af nýjum músum næsta sumar. „Fæðuskilyrðin hafa líka breyst. Smádýralífið hefur orðið fyrir skakkaföllum. Það er alltaf stór skaði af því þegar svona land brennur. Þetta er heilt vistkerfi sem er undir.“