Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ætla að tryggja þeim námsmönnum sumarstarf sem vilja

11.05.2021 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
2.500 sumarstörf verða í boði fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í tengslum við átakið Hefjum störf. Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, segir að tryggt verði að allir námsmenn sem vilja sumarstarf fái vinnu í sumar.

Átakinu Hefjum störf er ætlað að auðvelda fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og frjálsum félagasamtökum að ráða fólk. Ásmundur Einar kynnti sumarstörfin á fundi ríkisstjórnarinnar fyrir hádegi. En fyrir hverja eru störfin? 

„Námsmenn 18 ára og eldri. Það fara 1.400 störf til sveitarfélaga þar sem sveitarfélög munu skapa störf með stuðningi Vinnumálastofnunar. 
Síðan eru það opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök og líka fyrir iðnnema. Þessi 2.500 störf fara í auglýsingu í dag. Svo erum við tilbúin í startholunum ef á þarf að halda að skapa fleiri störf, ef það fyllist í þau á næstu vikum, því við ætlum okkur að geta tryggt að allir námsmenn sem vilja fá starf í sumar geti fengið starf.“

Hverjum námsmanni, 18 ára og eldri, sem ráðinn er með úrræðinu fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum, samkvæmt gildandi kjarasamningum, en að hámarki 472 þúsund krónur á mánuði, auk framlags í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er allt að tveir og hálfur mánuður. 

„Þetta eru bara mjög fjölbreytt störf. Störf í ráðuneytum, störf í stofnunum, störf hjá sveitarfélögum, bæði skrifstofum sveitarfélaga. Hjá frjálsum félagasamtökum eru þetta mjög fjölbreytt störf af því að þau eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Ég held að allir ættu að geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi,“ segir Ásmundur Einar.