Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

130 skotmörk hæfð á Gaza segir Ísraelsher

epa09190375 Smoke and flames rise after an Israeli airstrike in Gaza City, 10 May 2021. Sirens went off on 10 May in Jerusalem after rockets were fired from the Gaza strip. According to the Israel Defense Forces (IDF), an Israeli civilian in a nearby vehicle was lightly injured and evacuated for treatment. The Gaza Ministry of health announced the death of at least 20 people, including nine children, after an Israeli strike on northern part of the Gaza strip.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelsher sagðist í morgun hafa hæft 130 hernaðarlega mikilvæg skotmörk á Gaza í loftárásum í gærkvöldi og í nótt. 15 vígamenn úr röðum Hamas og öðrum vígasveitum hafi jafnframt verið vegnir. Yfirvöld á Gaza greindu frá því í gær að tuttugu væru látnir eftir loftárás Ísraelshers, þeirra á meðal níu börn. Tugir eru særðir.

Loftárásirnar eru hefndaraðgerðir fyrir flugskeytaárásir frá Gaza í átt að Jerúsalem. Jonathan Conricus, talsmaður Ísraelshers, sagði í samtali við AFP fréttastofuna í gær að loftvarnarbúnaður hersins hafi ráðið niðurlögum tuga flugskeyta frá Gaza. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði Hamas hafa farið yfir strikið með flugskeytaárásunum, og þeim yrði svarað af fullum krafti. 

Mikil róstur hafa verið í Jerúsalem undanfarna daga. Ísraelska lögreglan hefur beitt harkalegum aðgerðum gegn Palestínumönnum við Al-Aqsa moskuna í austanverðri borginni. Hundruð hafa særst í aðgerðunum. 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna boðaði til skyndifundar í kvöld vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs. Samkvæmt heimildum AFP er ekki samstaða um orðalag yfirlýsingar ráðsins. Bandaríkin eru sögð vilja milda orðalag sem lagt var til af norsku sendinefndinni í Öryggisráðinu. Heimildir AFP herma að Bandaríkjamenn segist vera að vinna á bak við tjöldin til að koma á ró fyrir botni Miðjarðarhafs, og Bandaríkjastjórn óttist að hörð yfirlýsing eigi eftir að gera illt verra.