Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Það er að verða töff að spila hlutverkaspil“

Mynd: - / Wikimedia commons

„Það er að verða töff að spila hlutverkaspil“

10.05.2021 - 13:47

Höfundar

Um þessar mundir kemur út 30 ára afmælisútgáfa af hlutverkaleikjatímaritinu Fáfni sem á sínum tíma var gefið út af samnefndu spilafélagi. Á þessum 30 árum hafa verið haldin reglulega mót og það fjölmennasta með 330 þátttakendum. Verslunin Nexus varð meðal annars til upp úr félagsskapnum.

Þorsteinn Kristjáns Jóhannsson stofnaði spilafélagið Fáfni snemma á tíunda áratugnum. „Ég var í spilahópi og við héldum að við værum þeir einu á landinu sem væru að þessu,“ segir hann í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. „Síðan gerist það að ég hitti mann sem er á leiðinni á ball í skólanum og ég kemst að því að hann er að spila og ég fæ símanúmerin hjá öllum hans vinum og ég hringi í þá alla og fæ símanúmerin hjá öllum sem þeir þekktu.“

Á endanum var hann kominn með vel yfir hundrað manns sem spiluðu hlutverkaspil reglulega. „Það varð til þess að við ákváðum að stofna spilafélagið, héldum mót og gáfum út tímarit. Eftir fyrsta spilamótið tók ég eftir að mikið af þessum mönnum, það voru engar konur til að byrja með, voru á jaðrinum, þetta voru greinilega ekki vinmargir einstaklingar og sumir varla talandi.“

Þrjátíu árum síðar hefur margt breyst. Það er mikil uppsveifla í hlutverkaspilun, sem að hluta má rekja til sjónvarpsþáttanna Stranger Things, og fjölbreyttari hópur er virkur en áður. Þess vegna var ákveðið að gefa út 30 ára afmælisútgáfu tímaritsins Fáfnis, að sögn Þorsteinds, í fáum eintökum þó og verða þau seld í sérvöruversluninni Nexus.

Anna Guðrún Guðjónsdóttir, eiginkona Þorsteins, skrifaði BA ritgerð í sagnfræði um sögu hlutverkaspila á Íslandi. Hún kynntist áhugamálinu í gegnum Þorstein þegar dóttir þeirra bað hann um að kenna sér hlutverkaspil. Upp frá því hefur fjölskyldan spilað saman reglulega. 

Þegar Anna Guðrún vann að lokaritgerðinni kynntist hún starfsemi sem Nexus heldur úti og heitir Nexus Noobs og er spilanámskeið fyrir krakka og unglinga. „Það eru sálfræðingar sem standa fyrir þessu og halda utan um þetta. Ég fékk að sitja þessi námskeið og þar sá ég hvernig þetta var að virka. Það eru krakkar að koma úr öllum áttum og sem ná þarna saman. Sumir eiga ekki marga vini en kynnast öðrum krökkum þarna,“ segir hún og bætir við að félagsskapurinn hjálpi mjög börnum og unglingum sem standa höllum fæti félagslega. „Það er bara þannig í íslensku samfélagi, ef þú stundar ekki íþróttir í grunnskóla, og sérstaklega ef þú ert strákur, þá ertu svolítið utangarðs.“

Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Námskeiðið Nexus Noobs hefur reynst mörgum vel.

Anna Guðrún vill að skólakerfið nýti sér hlutverkaspil í kennslu, allt frá fyrsta bekk og upp úr. „Í sumum grunnskólum er boðið upp á þetta sem val á unglingastigi. Ég hef starfað með kennara sem þekkir þetta. Hún talar um að þarna sameinist krakkar sem eru oft svolítið á jaðrinum.“ Hlutverkaspil geti einnig eflt samskiptahæfni. „Í hlutverkaspilum þarftu að hafa góð félagsleg samskipti, þið þurfið að vinna saman eða plotta gegn einhverjum öðrum, þú þarft að reikna út hluti og vera útsjónarsamur.“

Þorsteinn bætir við að hlutverkaspil höfði einnig til breiðari hóps, ólíkt því sem áður var. „Þetta eru ekki bara einhverjir nördar sem eru að taka þátt í þessu. Þetta hefur gjörbreyst. Það er að verða töff að spila hlutverkaspil.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Spil í staðinn fyrir sálfræðing

Menningarefni

Lærir að þekkja manninn í gegnum spil

Menningarefni

LARP var leiðin út úr feimninni