Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Rúmenar bólusetja í Drakúla-kastala

10.05.2021 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: EPA - RÚV
Í kastalanum sem talið er að Bram Stoker hafi fengið innblástur sinn af fylgsni vampírunnar blóðþyrstu, Drakúla, geta vegfarendur nú fengið bólusetningu við kórónuveirunni. Heilbrigðisstarfsfólk með vígtennur í klæðum sínum tekur á móti gestum í Bran-kastalanum í miðri Rúmeníu. Er þetta liður í aðgerðum stjórnvalda þar í landi til að hvetja fólk til láta bólusetja sig. 

Rúm milljón Rúmena hefur greinst með COVID-19 og nærri 29 þúsund hafa látist af völdum sjúkdómsins. Stefna stjórnvalda er að bólusetja tíu milljónir fyrir september en nærri helmingur Rúmena er óviss um hvort hann vill bólusetningu. Staðarhaldarar í Bran-kastala vonast til að innlegg þeirra hjálpi til við að ná settum markmiðum. Hverja helgi í maí getur fólk komið í kastalann og fengið bólusetningu án þess að panta tíma. Að auki fær fólk frían aðgang að sýningu kastalans á 52 pyntingatólum frá miðöldum, að sögn fréttastofu BBC. Alexandru Priscu, markaðsstjóri kastalans, segir hugmyndina vera að sýna fólki hvernig sprautur voru gefnar fyrir fimm eða sex hundruð árum.

Staðarhaldarar vonast einnig til að hugmyndin verði til þess að fleiri komi í kastalann. Hann er í Karpatafjöllum, var reistur á 14. öld og hefur verið vinsæll ferðamannastaður í Rúmeníu. Síðan faraldurinn hófst hefur ferðamönnum hins vegar hríðfækkað, líkt og annars staðar í heiminum. 

Talið er að prinsinn Vlad hafi haft aðsetur í kastalanum á miðöldum. Hann var þekktur var fyrir að stjaksetja fjandmenn sína. Vlad er fyrirmyndin að Drakúla eftir Bram Stoker.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV